Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[13:08]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Forsætisráðherra sagði að í þessari umræðu hefðu stór orð verið látin falla og lýsti því yfir að það væri einhver lögfræðilegur ágreiningur um það hvort stjórnvöldum beri að afhenda þinginu umbeðin gögn. Sem sagt, hér var forsætisráðherra að lýsa sig ósammála því að allsherjar- og menntamálanefnd hafi átt rétt til þess að kalla eftir þeim gögnum sem nefndin þurfti til að vinna frumvarp sem hún var með til umfjöllunar. En það er enginn ágreiningur um rétt nefndarinnar til að gera nákvæmlega þetta. Þetta er bara einhver moðreykur, þetta er ósatt. Það er enginn ágreiningur um lögin. Fleiri ráðherrar og stjórnarþingmenn hafa tekið undir þessa skoðun forsætisráðherrans. Ég get tekið undir að það eru stór orð og það er þungt að heyra forsætisráðherra Íslands gera atlögu að upplýsingarétti Alþingis til að verja eigin völd. Það eru ekki málefnalegar ástæður fyrir því að verja dómsmálaráðherra vantrausti að vilja halda sínum eigin stóli. — Þingmaðurinn segir já.