Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

náttúruvernd.

912. mál
[14:07]
Horfa

Thomas Möller (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir hennar frábæru ræðu hér og ég vil líka þakka hæstv. ráðherra fyrir hans frumkvæði í þessu máli. Ég tel að þetta sé eitt af þessum stóru málum sem hafa svolítið fallið í skuggann fyrir öðrum umhverfismálum. Það rifjaðist upp fyrir mér hér áðan þegar ég var á ferðalagi í Danmörku þegar börnin mín voru ung og þau spurðu: Pabbi, hvar er allt draslið? Hvar geyma Danir draslið? Við vitum það, þegar við keyrum hér um landið, að það eru bílhræ, vélarhræ og alls konar drasl og dót meðfram þjóðvegunum sem þarf að taka á. Það vill svo til að við hv. þm. Jakob Frímann Magnússon, sem er reyndar ekki viðstaddur, stofnuðum Græna herinn fyrir nokkrum árum og við höfum á hverju einasta ári í mörg ár skipulagt söfnunarleiðangra um landið. Bara í fyrra söfnuðum við 200 tonnum af járnarusli við Hvalfjarðargöngin en það eru 500 tonn eftir. Þannig að ég vil taka undir orð ykkar beggja og hvetja ykkur einmitt til dáða í þessu. Okkar land er svolítið dæmt af því hvernig snyrtimennskan er, sérstaklega á þjóðvegunum. Ég þekki þetta líka sjálfur af því að ég er í námi til leiðsögumanns og í því námi er hvað eftir annað minnt á hve margt er ógert í þessu landi varðandi umhverfisvernd sem felst í skynsamlegri umgengni meðfram þjóðvegunum. Það er í raun nauðsynlegt að sveitarfélög taki harðar á þessu því að það er allt of algengt að þeir sem henda draslinu hingað og þangað hafi ákveðinn rétt á að eiga þetta drasl. Önnur sveitarfélög hafa sett upp girðingar þar sem draslið er geymt innan girðingar. En ég hvet ykkur eindregið til þess að fylgja þessu máli vel eftir.