Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

náttúruvernd.

912. mál
[14:10]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Tómasi Möller fyrir hans innlegg og andsvar og líka fyrir að sýna frumkvæði með öðrum hv. þingmanni og öllum öðrum sjálfboðaliðum sem eru að leggja það á sig að hreinsa landið okkar. Ég held að þessi saga sem hv. þingmaður sagði af fjölskyldu sinni, ég held að þetta sé ekki eina sambærilega sagan sem er hægt að segja. Við eigum bara að hafa þessa hluti í lagi. Við þurfum ekkert að leita langt yfir skammt. Ég verð að segja eins og er að mér er eiginlega nákvæmlega sama hvaða leiðir við förum, auðvitað innan ákveðinna marka, mér finnst aðalatriðið að við sem þjóð setjum okkur það markmið að við ætlum að taka á þessum hlutum. Hér var Græni herinn nefndur og það er Blái herinn — það er fjöldi aðila sem þrífa fjörur og svæði. Það er frábært og sjálfboðaliðastarf verður seint fullþakkað en það er náttúrlega sorglegt af hve mörgu er að taka þegar kemur að því að tína upp rusl. Við þurfum því að taka á öðrum hliðum þessa líka. Ég held að ef fólk veit af því að það sé stranglega bannað og það kosti ef þú hendir rusli — ég held að það sé leið, það virðist líka vera leið í öðrum löndum. Ég er oft gagnrýndur fyrir að vera lítið fyrir boð og bönn en stundum er slíkt réttlætanlegt. Við skulum ekki gleyma því að ef fólk hendir rusli úti í náttúrunni eða annars staðar þá verður það kostnaður sem leggst síðan á almenning og skattgreiðendur.