Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[14:26]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir andsvarið. Já, það er rétt að hugtakið bændastétt kemur fram í greinargerð til skýringar við kaflann um fæðuöryggi. Það er líka rétt að í 1.5, um fæðuöryggi, segir með leyfi forseta:

„Styrktar verði stoðir fjárhagslegrar afkomu framleiðenda sem einnar af undirstöðum fæðuöryggis.“

Ég hefði viljað sjá að þarna stæði að stoðir undir fjárhagslega afkomu bænda, sem einnar af undirstöðum fæðuöryggis í landinu, yrðu styrktar. Það sem ég vil leggja áherslu á og ég get tekið dæmi um það er að reiknað endurgjald sem bændur gefa til skatts, t.d. sauðfjárbændur, er um 360.000 kr. eða 266.000 kr. sem er lágmarks reiknað endurgjald. Það sýnir stöðu þessara stétta, stöðu sauðfjárbænda og bænda. Ég á því miður ekki sæti í atvinnuveganefnd en ég vona innilega að það verði komið með breytingartillögu sem fjalli beinlínis um lífsafkomu bænda í landbúnaðarstefnu fyrir árið 2040, ég tel að það sé mjög mikilvægt, og að það verði viðurkennt að þetta er grundvallarstoð í byggðum landsins, grundvallarstétt í byggðum landsins og í landbúnaði í landinu. Það verður ekkert fæðuöryggi tryggt nema lífsafkoma bænda verði tryggð. Það verður engin framleiðsla á heilnæmum landbúnaðarafurðum nema lífsafkoma bænda verði tryggð. Það er þannig sem við eflum íslenskan landbúnað. Það getur vel verið að þetta séu allt mjög göfug markmið og annað slíkt en það verður að vera umgjörð utan um bændastéttina þannig að hún geti sinnt starfi sínu með fullri reisn og náð þeim markmiðum sem hér eru lögð fram.

Spurningin er þessi til hæstv. ráðherra: Væri ekki vert að hafa sérstakan kafla, t.d. bara 2. kafla eða 1. kafla, þá gæti fæðuöryggi verið 2. kafli, sem fjallar um lífsafkomu bænda og (Forseti hringir.) mikilvægi bændastéttarinnar í landbúnaðarstefnu landsins?