Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

matvælastefna til ársins 2040.

915. mál
[15:52]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir að koma fram með þingsályktunartillögu um matvælastefnu og ég fagna henni mjög. Ég ætla aðeins að bakka aftur í tímann. Á 149. löggjafarþingi samþykktum við þingsályktun um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Þar er í 12. lið tekið fram að hluti af þessari aðgerðaáætlun sé að koma fram með matvælastefnu sem tengir þetta aðeins saman.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að bakka aðeins aftur í landbúnaðarstefnuna af því að ég komst ekki í það að fagna þeirri stöðu sem núna blasir við okkur sem snýr að kornræktinni. Hún er virkilega ánægjuleg og eru mikil sóknartækifæri þar. Vissulega er það nú þannig að þegar við erum að tala um matvælastefnu og landbúnaðarstefnu þá blandast þetta aðeins saman hjá okkur.

Ég ætla að koma hér inn á hluti sem snúa að upprunamerkingum eða -vottun. Þeim ber að fagna sérstaklega, t.d. fréttunum sem við fengum nú í vikunni sem snúa að íslenska lambinu og sá sem hér stendur þekkir nú svo sem þann aðdraganda nokkuð vel. Það er svona eitt skref í því að koma réttum og góðum upplýsingum til neytenda. Það er líka mjög mikilvægt að vernda afurðaheiti. Við erum með ákveðið regluverk í kringum merkingar á matvælum en því miður er því einhvern veginn ekki framfylgt af fullum þunga og því miður á sér stað ákveðinn blekkingarleikur, leyfi ég mér að segja, þegar kemur að merkingu matvæla. Við sjáum það mjög vel ef við förum í búðir, sérstaklega þegar kemur að nautakjötinu, að það hefur kannski verið þannig í einhver misseri að eingöngu íslenskt nautakjöt hafi t.d. verið í hamborgurum — við þurfum ekki að nefna einhver vörumerki — en síðan kemur að því að það er kannski ekki fáanlegt lengur á innlendum markaði og er þá flutt inn, jafnvel er sett í þetta þýskt nautakjöt, og neytandinn er ekki upplýstur um breytinguna. Kannski eru einhverjir litlir stafir aftan á pakkningunni sem segja til um upprunalandið, en því miður er verið að blekkja neytandann varðandi upprunann. Það er þannig og hefur verið reynt, að þegar menn merkja vöru t.d. með erlendum þjóðfána þá minnkar salan, versus það þegar sama vörumerki var undir íslenskum fána. Því er þetta gríðarlega mikilvægt verkefni og komið er inn á þennan þátt í matvælastefnunni.

Eitt atriði sem ég ætlaði líka að koma inn á snýr að fæðuöryggi þjóðarinnar og hef ég haft mikinn áhuga á að fjalla um það undanfarin ár. Komið er vel inn á það í þessari stefnu og stefnan sjálf finnst mér fara mjög vel yfir allt sem snýr að því og snertir mjög marga fleti. Það verður vissulega krefjandi fyrir atvinnuveganefnd að fara inn á þessa braut, því ég myndi telja að snertiflöturinn væri einfaldari varðandi landbúnaðarstefnuna, en þegar kemur að matvælastefnu þá erum við að tala um allt aðra hluti sem við höfum ekkert mikið verið að velta fyrir okkur undanfarið eða yfir höfuð.

Við tókum þessa umræðu nokkuð þétt á sínum tíma, á 149. löggjafarþingi, varðandi þá aðgerðaáætlun sem var samþykkt þá. En í þessari stefnu hér er farið enn víðar yfir þetta, rannsóknir eru sömuleiðis teknar með, sem er mjög gott, og horft er til sjálfbærni í matvælaframleiðslu og ekki síst þarfa neytenda og hvernig við uppfyllum þær. Við þurfum alltaf að horfa til þess að neytandinn sé upplýstur. Vissulega eru einhverjar frumþarfir sem þarf að uppfylla, en upplýsingagjöf og upplýstur neytandi er öllum fyrir bestu þegar verið er að fjalla um matvælaframleiðsluna í heild sinni, sérstaklega í ljósi þess, svo að við tengjum þessa umræðu við umræðuna um landbúnaðarstefnuna, að þegar við horfum til framtíðar hvað varðar innlenda matvælaframleiðslu þá kemur matvælaöryggi svo gríðarlega sterkt inn. Þetta er það sem íslenskir neytendur þekkja og hið sama á við um fjölmarga neytendur erlendis frá. Við þekkjum öll verkefni sem snýr að markaðssetningu á lambakjöti gagnvart erlendum ferðamönnum. Ég sé alveg fyrir mér hvað gerist þegar við fylgjum þessari upprunavottun frekar úr hlaði og þeirri verndun á afurðaheitum sem núna er komin, því að þarna liggja upplýsingarnar fyrir. Neytandi getur farið inn á einhverja heimasíðu, flett upp upplýsingum um vöruna og þannig eigum við að hafa þetta. Neytandinn á alltaf að vera upplýstur um það sem hann er að kaupa, því að heilt yfir velur neytandinn vöru úr sínu nærumhverfi ef hún er til staðar, þótt hún sé aðeins dýrari.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra og vil þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir að koma fram með þessar tvær stefnur, landbúnaðarstefnu og matvælastefnu, og verður það krefjandi og gefandi verkefni fyrir okkur í atvinnuveganefnd að takast á við þær og fylgja þeim eftir.