Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

matvælastefna til ársins 2040.

915. mál
[16:09]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla að þakka hv. þingmönnum fyrir góða umræðu. Mig langar kannski bara að bregðast við nokkrum atriðum sem komu fram í máli þeirra sem tóku þátt í umræðunni. Í fyrsta lagi þetta með að tengja saman stefnur. Hv. þm. Haraldur Benediktsson talaði hér sérstaklega um samþættingu matvælastefnu og lýðheilsu. Í greinargerðinni með tillögunni segir sérstaklega, með leyfi forseta:

„Góðir framleiðsluhættir eru lykilatriði í að tryggja matvælaöryggi og heilnæma matvælaframleiðslu. Matvælaöryggi er sannreynt með öflugu eftirliti og vöktun. Einnig þarf að tryggja að framleiðsluhættir séu samkvæmt hugmyndafræði „einnar heilsu“, þar sem horft er til þess að heilbrigði og velferð manna og dýra sé samtengt. Þetta helst í hendur við það mikilvæga verkefni að lágmarka sýklalyfjaónæmi baktería í umhverfi og matvælum hérlendis.“

Þetta er mjög mikilvægur punktur og verður alls ekki rofið í sundur eða aðskilið.

Í öðru lagi varðandi ábendingar hv. þingmanns um sögu kynbótajarðræktar og þekkingaröflun og rannsóknir á sviði kornræktar og þau sjónarmið sem koma fram í skýrslunni um bleika akra, þar er sannarlega mikilvægt að halda sögunni til haga og það gleður mig mjög að hv. þingmaður hefur greinilega skýrsluna á náttborðinu þannig að honum er skýrslan mjög hugleikin. Hún er mjög góð vegna þess að hún fjallar bæði um sóknarfærin í þessu en fer líka á dýptina, í hagræn áhrif og í raun og veru möguleika Íslands á því að, eins og hv. þingmaður orðar það, hefja bara dálítið nýjan kafla í því hvernig við sjáum íslenskan landbúnað vera part af þessu fæðuöryggi og hringrásarhagkerfi hér með því að draga þar með úr kolefnisspori og auka möguleika á nýliðun og öflugri framtíðarsýn í landbúnaði almennt. Og mikið á ég eftir að sakna hv. þingmanns héðan úr þingsal vegna þess að við erum svo sammála og höfum svo iðulega rætt um mikilvægi grunnrannsókna og vöktunar og auðvitað líka háskólanna í því að vera alltaf á vaktinni og undirbyggja og, ef við getum sagt það því að það hentar umræðuefninu, virðulegur forseti, plægja þann jarðveg sem síðan nærir sprotana sem síðan sækja um í samkeppnissjóði. Ef jarðvegurinn er ekki fyrir hendi, ef vöktunin, grunnrannsóknirnar o.s.frv. eru ekki fyrir hendi og þennan grunn skortir þá er náttúrlega ekki til mikils að fá nýjar hugmyndir. Þarna erum við auðvitað með grunnstofnanir okkar og ég vil þá kannski sérstaklega nefna annars vegar Hafrannsóknastofnun, sem við hv. þingmaður höfum rætt nokkrum sinnum, bæði hér og í nefndum þingsins, en ég vil líka nefna Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnun því að þetta eru stofnanir sem eru að vakta hlutina frá einum degi til annars, frá einum mánuði til annars o.s.frv. og eru við skjáinn þegar síðan eitthvað gerist. Mögulega snýst þetta um náttúruvá, mögulega snýst þetta um að safna grunngögnum til að hafa grunnlínu til að bera saman við vegna breytinga á loftslagi, breytinga á veðurfari o.s.frv. milli eins tímabils og annars. Þannig að ég tek undir það hversu mikilvægt það er og ég er sérstaklega ánægð með að það hefur verið vaxandi skilningur á þessu þvert á pólitískar línur hér og þess sést stað líka í fjármálaáætlun að þarna þurfum við að leggja meiri áherslu á sérstaklega hafrannsóknir.

Ég vil að lokum í þessari umræðu, líkt og ég gerði í umræðunni um landbúnaðarstefnuna, undirstrika mikilvægi þess að matvælastefna fái þinglega meðferð. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir samfélag sem vill vera í fremstu röð í matvælaframleiðslu og hefur ótrúlega sterka stöðu í því að sækja fram í samfélagi þjóðanna. Hvort sem það er vegna þess að við höfum einstakt aðgengi að hreinu og góðu vatni, umhverfisvænum orkukostum, miklum landgæðum, þá höfum við tækifæri til að vera í fremstu röð ef við stillum kompásinn eða fókusinn eftir atvikum nægilega vel varðandi mannauðinn, menntunina, rannsóknirnar o.s.frv. og stillum þessa strengi alla saman vegna þess að fámennt samfélag þarf að nýta mannauðinn vel. Við eigum að gera sem minnst af því að gera sömu hlutina oft. Með því að búa til matvælastefnu erum við að búa til sameiginlegan kompás fyrir þessar frumframleiðslugreinar okkar og sýnina sem við viljum leggja til grundvallar, að geta þar með verið í fremstu röð og þar sem íslensk matvælaframleiðsla á að vera.