Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

svör við fyrirspurnum.

782. mál
[11:21]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Okkur hefur verið tíðrætt um samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds að undanförnu og ekki að ósekju. Það er greinilegur ágreiningur um hvernig þeim samskiptum skuli háttað. Við höfum verið að upplifa lögfræðilegar skylmingar hér í ræðustól um þetta atriði og ég er í raun engu nær eftir þau hjaðningavíg. Á framkvæmdarvaldið að fylgja einhverjum reglum þegar þingnefndir eða þingmenn leita eftir upplýsingum eða getur framkvæmdarvaldið bara sjálft ákveðið hvenær og hvort svarað er? Ástæðan fyrir þessum hugrenningum mínum er sú að ég á inni fyrirspurn frá 5. desember á síðasta ári til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og mig er farið að lengja eftir svari. Eftir nokkra daga eru liðnir fjórir mánuðir frá því að þessi fyrirspurn var sett fram og ekkert bólar á svari.

Forseti. Hvaða reglur eiga að gilda um þessi samskipti? Er það framkvæmdarvaldið sem ákveður það?