Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

svör við fyrirspurnum.

782. mál
[11:27]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Þann 9. nóvember sl. sendi ég fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um endurviðtökusamninga. Hvað er það? Jú, það eru samningar sem íslenska ríkið gerir við önnur ríki, t.d. um endurviðtöku fólks sem ekki hefur hér heimild til dvalar. Hvers vegna spurði ég að þessu? Jú, vegna þess að ríkisstjórninni er svo annt um það að bæta þennan málaflokk og leysa þau vandamál sem skapast þegar einstaklingar fá synjun um dvalarleyfi en annaðhvort telja sig ekki geta farið aftur til baka eða vilja það ekki af einhverjum ástæðum. Þessari fyrirspurn hefur ekki verið svarað. Samkvæmt þingskapalögum þá á ráðherra almennt að svara fyrirspurnum innan tveggja vikna. Það eru liðnir 142 dagar, tíu sinnum þeir dagar sem ráðherra að jafnaði hefur. Miðað við umræður hér í gær þá hljóta þessar upplýsingar að vera annaðhvort ekki til vegna þess að Alþingi virðist ekki eiga rétt á upplýsingum sem eru ekki tilbúnar og hægt að rétta því, miðað við túlkun alþingismanna á lögum um þingsköp Alþingis, eða (Forseti hringir.) að það sé bara löngu búið að komast að þeirri niðurstöðu, sem var staðfest hér í gær með atkvæðum meiri hlutans, að ráðherra sé bara í sjálfsvald sett hvort hann afhendi Alþingi þau gögn sem það óskar eftir á grundvelli laga um þingsköp Alþingis.