Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

svör við fyrirspurnum.

782. mál
[11:30]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að þegar framkvæmdarvaldið virðir ekki tilskilinn frest í þingskapalögum þá er verið að hamla störfum okkar hér á þingi. Þetta eru alla jafna fyrirspurnir sem hafa eitthvað að gera með m.a. þingmál sem eru í vinnslu, mál sem beðið er eftir frá ríkisstjórninni og ástandið í samfélaginu almennt. Þegar líða kannski margir mánuðir án þess að fyrirspurnum sé svarað þá er það nú oft þannig að á endanum rýrir það gildi fyrirspurnarinnar sjálfrar og svaranna. Þingið hefur kannski ósköp lítið að gera við þessi svör mörgum mánuðum seinna. Því hamlar þetta störfum okkar hér á löggjafarþinginu og ég vil bara velta því upp, og ég myndi kannski beina því sérstaklega til hæstv. forsætisráðherra ef hún væri hér í salnum, hvort það sé ástæða til þess, fyrst ráðuneytin og ráðherrar sjá ekki ástæðu til að virða þessi viðmið í þingskapalögum, (Forseti hringir.) að hnykkja e.t.v. eitthvað á því líka í lögum um Stjórnarráð Íslands að ráðuneyti setji þetta ekki bara neðst í forgangsbunkann.