Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að bæta í fjárheimildir í þessari áætlun vegna næsta árs og áfram um 2 milljarða. Í rammasamkomulaginu eru margar undirliggjandi forsendur gefnar en í þeim efnum þá held ég að enginn geti í raun og veru séð fyrir þrjú eða fimm ár fram í tímann. Við skulum gera það sem ég nefndi hér áðan, að fylgjast vel með þróuninni, hver eftirspurnin verður, hver staðan verður á byggingarmarkaði. Í augnablikinu höfum við þá stöðu uppi að við erum í raun og veru með metfjölda íbúða í undirbúningi og í byggingu. Það sýna allar opinberar tölur. Þess vegna er ekki ástæða til að hafa áhyggjur til skamms tíma af íbúðaskorti en það verður að fylgjast mjög náið með þeirri þróun og bygging á almennum íbúðum getur verið snar þáttur í því að tryggja tímanlega og fullnægjandi framboð íbúða fyrir þá sem þurfa t.d. á þessu íbúðaúrræði að halda. Nú er marsmánuður, við verðum með fjárlög vegna næsta árs til umræðu hér í þinginu í haust. Þá höfum við enn betri forsendur til þess að meta árið 2024 en við höfum kannski í dag í þessu tilliti og getum þá velt fyrir okkur hvort 2 milljarðar til viðbótar vegna næsta árs séu fullnægjandi eða hvort bæta þurfi í. En eins og ég nefndi áðan erum við fyrir utan þessa nýju 2 milljarða með vannýttar fjárheimildir á þessu ári sem virðast ekki ætla að ganga út.