Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:07]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Fyrir utan hækkun á tekjuskatti fyrirtækja á næsta ári er fjármálaráðherra hér í dag að lýsa óbreyttu ástandi, óbreyttri stefnu ríkisstjórnarinnar, og mér finnst það með nokkrum ólíkindum. Það er ekkert á bak við stór orð um að ríkissjóður sé loksins að beita sér í baráttunni við verðbólguna og fyrir þetta aðgerðaleysi munu heimilin í landinu, fyrirtækin í landinu, borga, og ungt fólk á húsnæðismarkaði. Myndin er í sjálfu sér ekki flóknari en þetta. Við sjáum örfáar tímasettar skattaaðgerðir; það er vaskurinn, það er hærri tekjuskattur á fyrirtækin. Allt annað eru bara hugleiðingar og hjal. En stærsta vandamálið er auðvitað að útgjaldahliðin er ekki snert. Það þarf að draga úr umsvifum ríkisins. Næg er nú yfirbyggingin þar. Þetta verður ráðherra að gera ef hann ætlar sér á annað borð að hjálpa til.

Mig langar að spyrja um skuldir. Hæstv. fjármálaráðherra talar mikið um skuldahlutfallið, að það sé gott. En auðvitað verður að skoða það hvað skuldirnar kosta okkur. Þriðji stærsti útgjaldaliður síðustu fjárlaga var vaxtakostnaður. Þjóð með tvöfalt hærra hlutfall vaxtagjalda ríkissjóðs en aðrar þjóðir hlýtur að skoða þetta mjög alvarlega. Við erum að blanda okkur í baráttuna um Evrópumeistararatitilinn um hæsta vaxtakostnaðinn. Þetta hefur auðvitað áhrif á getu ríkisins til að fjárfesta í þjónustu fyrir fólkið í landinu.

Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra um lánskjör Íslands. Hæstv. viðskiptaráðherra sagði nýlega að lánskjör Íslands væru ekki nægilega góð og það væri vandamál. Seðlabankastjóri hefur talað um að hann telji lánshæfismat Íslands of lágt. Hvernig metur hæstv. fjármálaráðherra lánskjör Íslands? Hverjar eru ástæðurnar fyrir því að þau eru þau sem þau eru? Og hefur hæstv. ráðherra sett sér einhver markmið í þessum efnum; um betri lánskjör, betra lánshæfismat eftir að fjármálaáætlunin hefur verið kynnt? Verður það afleiðing þessarar stefnu?