Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:12]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Forseti. Ef verðbólguvæntingar eru ástæða þess að lánskjör íslenska ríkisins eru ekki nægilega góð þá hefur það með fjármálastjórn hæstv. fjármálaráðherra að gera. Fjármálaráðherra hefur lýst því sjálfur: Vandi okkar er sá að við höfum tapað trú fólks á því að við náum verðbólgunni niður. — Þetta hefur með stjórn hæstv. fjármálaráðherra sjálfs að gera.

Mig langar til að halda áfram á svipuðum slóðum. Þegar Viðreisn hefur spurt hvers vegna þurfi margfalt hærri vexti hér á landi við svipuð verðbólguskilyrði og annars staðar, er svarið alltaf: Vegna þess að hér er svo mikill hagvöxtur. Nýverið komu fram áhugaverðar tölur frá BHM sem sýna að þetta er einfaldlega rangt. Hagvöxtur á Íslandi er minni á mann en í nágrannalöndum okkar. Það verður auðvitað að skoða hagvöxt með tilliti til fólksfjölda, að þegar hagvöxtur eykst vegna fólksfjölgunar, eins og gerist hér á landi, er einfaldlega fleiri munna að metta. Fólk fær ekki meira. Tafla OECD sýnir það sama. Þetta er sláandi. Við erum eftirbátar flestra þjóða þegar kemur að hagvexti að þessu leyti.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þetta atriði. Þegar við spyrjum hvers vegna vextir á Íslandi eru þetta háir er svarið alltaf: Vegna þess að hagvöxturinn á Íslandi kallar á það. Mótmælir hæstv. fjármálaráðherra þessum tölum frá BHM um að þetta sé einfaldlega rangt, að hagvöxtur, að teknu tilliti til fólksfjölda, sé minni á Íslandi? Og hvaða áhrif hefur það þá aftur á þessar verðbólguvæntingar sem fjármálaráðherra er að lýsa, væntingar sem eru bein afleiðing þess hvernig fjármálaráðherra heldur á veskinu sjálfur?