Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal taka á mig mikla ábyrgð á því hvernig fjármál ríkisins þróast frá einum tíma til annars. En ég get auðvitað ekki tekið ábyrgð á því hvernig verðbólguvæntingar almennt eru í samfélaginu, eins og hv. þingmaður vill að ég geri. Það er gríðarlega stór áhrifavaldur á verðbólguvæntingar í landinu þegar launaþróunin hér er úr öllum takti við það sem gerist í öðrum löndum ár eftir ár eftir ár. Við förum fram á nafnlaunahækkanir ár eftir ár, langt umfram það sem er að gerast annars staðar. Ég bið menn, sem efast um að ég hafi rétt fyrir mér um þetta, að kynna sér nýjustu niðurstöðurnar í kjaraviðræðum í Svíþjóð, skoða hvernig kaupmáttur er að þróast í Þýskalandi eða Bretlandi þar sem hann er að hrynja. Þar er bara alvarlegt ástand. Þar eru stjórnvöld að velta því fyrir sér hvort þau geti yfir höfuð verðtryggt bætur almannatrygginga í landinu.

Það er alveg augljóst, ef menn skoða þetta af einhverri sanngirni — ég leyfi mér t.d. að vísa til þeirrar skýrslu sem var gefin út hér, ef ég man rétt, á árinu 2022, unnin af Katrínu Ólafsdóttur og Arnóri Sighvatssyni, sem dregur þetta alveg skýrt fram: Við reynum sífellt í kjaralotunum að ná meiru út en framleiðnivöxturinn réttlætir. Það leiðir til verðbólgu sem er viðvarandi hærri hér en í öðrum löndum. Þetta er meginniðurstaða skýrslunnar. Svar stéttarfélaganna var það að upphafspunkturinn hefði verið rangur, en það var verið að horfa yfir langt árabil. Við þekkjum þessa sögu. Þeir sem hafa lesið bók Jóhannesar Nordals, sem kom út undir lok síðasta árs, sjá þessa sömu sögu teikna sig upp aftur og aftur í gegnum áratugina. Og á ársfundi Seðlabankans í gær sagði seðlabankastjóri beint út að mesti veikleikinn í íslenskum efnahagsmálum væri vinnumarkaðurinn á Íslandi.

Ég skal taka á mig mikla ábyrgð á því hvernig ríkisfjármálin þróast frá einum tíma til annars en þennan þátt er ekki hægt að slíta úr samhengi við verðbólguvæntingar í landinu og vaxtastig.