Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:16]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við lestur þessa skjals, fjármálaáætlunar fyrir árin 2024–2028, virðist við fyrstu sýn sem áherslan eigi að vera að vernda tilfærslukerfin jafnframt því að sporna gegn verðbólgu með sértækum aðgerðum og tekjuráðstöfunum. Þegar málið er skoðað nánar kemur í ljós að hinar sértæku aðgerðir eru lítið annað en fyrirsláttur. Tilfærslukerfin og félagslegir innviðir munu ekki fá viðhlítandi stuðning á komandi árum. Hinar sértæku aðgerðir sem eru sagðar hafa það hlutverk að spila við peningastefnu Seðlabankans eru að mestu leyti þegar fyrirhugaðar aðgerðir. Það á sem sagt að ná tökum á verðbólgunni með því að gera það sem þegar hefur verið ráðgert. Nú á bara að kalla eldri plön aðgerðir gegn verðbólgunni. Sparnaðarmegin er það sameining húsnæðis og stofnana, minni niðurgreiðslur rafbíla, aðhaldskrafa úr 1% í 2%, aðhaldskrafa á skóla 0,5% auk viðbótarprósentuaðhalds á aðalskrifstofu Stjórnarráðsins og jú, það á að fresta nýbyggingu við forsætisráðuneytið, sennilega ljótasta bygging sem teiknuð hefur verið í miðborginni síðustu áratugi.

Tekjumegin eru nýjar aðgerðir ríkisstjórnar ekki umfangsmiklar. Hvalrekaskattur á lögaðila um heilt 1% í eitt ár. Meira er það ekki eftir að fyrirtæki í landinu hafa skilað methagnaði ár eftir ár. Ríkissjóður ætlar að gera sértæka hagræðingarkröfu á eldri samninga sem á að skila 4 milljörðum kr. Er fjármálaráðherra að segja okkur það að hann hafi ekki þegar haft nægt eftirlit með samningum ríkisins við einkaaðila? Að sóunin nemi 4 milljörðum kr.? Hann hefur jú eftir allt haldið utan um fjármál ríkisins í heilan áratug. Svo má nefna hækkun veiðileyfagjalds einhvern tímann seint og síðar meir. Þá sést það, ef rýnt er í málaflokkana, að ekki á að styrkja við rekstur heilsugæsla og hjúkrunarheimila. (Forseti hringir.) Það er umhugsunarvert þegar bið eftir tíma á heilsugæslustöðvum og bið eftir læknisaðgerðum er talin í mánuðum ef ekki misserum. Fráflæðisvandi Landspítalans (Forseti hringir.) er enn þá fyrir hendi. Öldrun þjóðarinnar er löngu fyrirséð og er ráðgert að hún verði 3% árlega, fjölgun ellilífeyrisþega, en ekkert er gert og greiðslur standa í stað. (Forseti hringir.)

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: (Forseti hringir.) Er hin raunverulega stefnumörkun þessarar fjármálaáætlunar að svelta velferðarkerfið?

(Forseti (OH): Forseti vill biðja hv. þingmenn að virða ræðutíma, sem þó hefur verið lengdur að þessu sinni.)