Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er verið að vernda tilfærslukerfin. Félagslega öryggisnetið verður þéttriðnara með þessum áformum. Ég nefni sérstaklega þessi áform um breytingar á bótakerfi örorkulífeyrisþega á áætlunartímabilinu. Þetta eru meiri háttar breytingar sem munu fela bæði í sér styrkingu kerfisins og sanngjarnara og réttlátara kerfi, mannúðlegra kerfi með hvötum til að bjarga sér ef maður getur, að sækja sér starf. Það er eitthvað sem við höfum lengi talað um að sé í raun og veru refsað fyrir þó að við höfum verið að hækka frítekjumarkið núna um síðustu áramót en nýja kerfið verður miklu réttlátara. Tilfærslukerfin að öðru leyti, þessi stærstu eins og ellilífeyrir, eru kerfi sem eru varin á þessum verðbólgutímum. Við sjáum fyrir okkur að hækka bætur á miðju þessu ári til að brúa bilið milli þess sem við áætluðum um verðbólgu á þessu ári og þess sem er að raungerast.

Varðandi innkaup ríkisins þá höfum við á undanförnum árum gjörbylt þeirri stofnun sem er þar svona miðjusett við að stjórna innkaupunum, þ.e. Ríkiskaupum. Þar hafa verið gerðar miklar og jákvæðar breytingar á öllu fyrirkomulagi og við höfum þegar náð gríðarlegum árangri með því að endurskoða allar helstu áherslur. Við teljum að ef við tökum eldri samninga sem eru að renna út og tryggjum að þeir fari allir í útboð þá getum við haldið áfram að skila svona ávinningi. Það hefur enginn setið auðum höndum í þessu efni, þvert á móti. Við höfum verið að efla þessa stofnun.

Heilsugæslan hefur einmitt nýverið fengið stórauknar fjárheimildir og heldur þeim áfram. Ég er sammála hv. þingmanni að því marki sem hann er hér að leggja áherslu á mikilvægi heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu. Við ætlum að halda því áfram þannig og stöndum vörð um það fyrirkomulag.