Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum m.a. með því að taka til ríkisins stórbætta afkomu í gegnum tekjukerfin að standa með aðgerðum gegn verðbólgu. Það er mjög augljóst að á árinu 2023 eru ríkisfjármálin að standa með aðgerðum gegn hækkun verðbólgunnar vegna þess að afkoman er að stórbatna. Það er afkomubatinn frá einum tíma til annars sem hlýtur að vera helsti mælikvarðinn á aðhald í ríkisfjármálum og okkar framlag til þess að draga úr umsvifum ríkisins eða fyrirferð í hagkerfinu. Þetta er svo augljóst að ég hélt að við þyrftum ekki að deila um það. En við viljum halda þessari meginstefnumörkun áfram. Þetta gerist af sjálfu sér vegna þess að við erum með hlutfall af umsvifunum sem stóru tekjustofnana. Í virðisaukaskattskerfinu þá tökum við alltaf okkar sneið hvort sem er í lægra eða efra þrepi og sama gildir í tekjuskatti einstaklinga og lögaðila. Þannig að tekjur ríkisins aukast á þenslutímum og þá er bara aðalatriðið að eyða þeim peningum ekki samstundis aftur heldur leyfa afkomunni að batna og það er það sem við erum að gera og við erum að gera það á hraða sem er langt umfram það sem við gerðum ráð fyrir að væri hægt fyrir stuttu síðan.

Varðandi tilfærslurnar þá heyrist mér að hv. þingmaður sé að leggja aðaláherslu hér á ellilífeyrisþega. Við erum að segja að framfærslukerfin (Gripið fram í.) sem eru vegna þeirra eru sérstaklega varin og í tilfelli öryrkjanna erum við að bæta í. Við erum að boða kerfisbreytingu fyrir öryrkja sem mun stórbæta stuðning við þá sem treysta á örorkulífeyri. Og þegar sagt er að ellilífeyrisþegar á Íslandi séu fátækasti hópurinn þá held ég að við ættum frekar að nálgast þetta þannig að þetta sé gríðarlega fjölbreyttur hópur. Það sem við sjáum á opinberum tölum, t.d. á tekjusögunni.is, er að með hverjum nýjum árgangi sem kemur á ellilífeyri þá er staðan gjörbreytt vegna þess að fleiri og fleiri eru að koma á efri ár inn í lífeyrisárin með miklu betri stöðu í lífeyrissjóðum heldur en kynslóðirnar sem komu á undan.