Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég velti aðeins fyrir mér efnahagspælingunum í þessari fjármálaáætlun og ég fæ þær ekki alveg til að ganga upp. Það á að vera markmið um að ná verðbólguviðmiði Seðlabankans, 2,5%. Miðað við þjóðhagsspá á það að nást 2027. En þegar ég skoða þetta betur þá sé ég á bls. 29, þar sem er farið yfir opinbera fjárfestingu, að hún hafi verið í fyrra hafi verið 151 milljarður á verðgildi þess árs. Svo eru smábreytingar, opinber fjárfesting í ár lækkar samkvæmt því og hækkar síðan næstu þrjú árin fram til 2026 og miðað við þær prósentubreytingar þá erum við komin í 155 milljarða árið 2026. Á bara á næstu blaðsíðu, bls. 30, er fjallað um 150 milljarða stórfjárfestingaverkefni sem eru væntanleg, 80 milljarða aukning í opinberri fjárfestingu. Það er miklu meira en þessir 155 milljarðar sem eru þá komnir árið 2026 þannig að maður hlýtur að spyrja: Hvaða 80 milljarðar af fjárfestingarverkefnum eru þá að hverfa í staðinn? Eða er verið að auka opinbera fjárfestingu um þessa 80 milljarða umfram það sem stendur í þjóðhagsspánni? Hvaða áhrif hefur það á verðlagið og efnahaginn? Mér finnst þetta mjög merkilegt. Hér munar bara einni blaðsíðu, á þessum tveimur gögnum þar sem við getum nálgast, og tölurnar stemma ekki. Ég fæ ekki séð af hverju þær stemma ekki. Eina skýringin sem ég sé er að annaðhvort vanti að gera ráð fyrir aukningunni í þjóðhagsspá eða það vanti að gera grein fyrir því hvaða fjárfestingar upp á 80 milljarða eru að hverfa á næstu árum út úr starfsemi ríkisins.