Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Á bls. 30 er einmitt verið að sýna okkur þessa aukningu í þessum völdu verkefnum. Þetta er aukning upp á 80 milljarða í opinberum framkvæmdum. Þjóðhagsspáin sýnir ekki þessa 80 milljarða aukningu. Þar af leiðandi hlýtur einhver önnur opinber fjárfesting að hverfa á móti eða hvað? Ég veit ekki hvort það er af því að það er ekki útskýrt. Ég sé það ekki heldur á bls. 34 þar sem er verið að fjalla um sviðsmyndagreininguna, björtustu og svörtustu sviðsmyndina, hvaða sviðsmynd við erum að tala um hvað það varðar. Er grundvöllurinn þjóðhagsspáin fyrir björtustu sviðsmyndina eða venjulegu sviðsmyndina varðandi verðbólgu t.d.? Mér finnst það óþægilegt þegar sett er fram svona sviðsmynd að það séu ekki gefnar upp undirliggjandi stærðir þar. Það er talað um að svartsýna sviðsmyndin verði þá með 1–2% hærri verðbólgu, ef það raungerist, en 1–2% hærri verðbólgu en hvað? Það er bara ekki sagt. Ég kaupi ekki alveg efnahagsrökin í þessari fjármálaáætlun. Það er verið að segja að það eigi að stuðla að lækkandi vöxtum og lægri verðbólgu en svo eru bara 80 milljarða í opinber verkefni hérna til viðbótar sem sjást ekki í þjóðhagsspánni. Þó velti ég fyrir mér hvort er rangt eða vantar að greina frá og hvar það passi inn í. Hvar eru þessir 80 milljarðar? Hvaða áhrif hafa þeir í þá átt að auka þenslu þegar allt kemur til alls? Eru þeir bjartsýna sviðsmyndin? Hvað erum við að tala um? Við ætlum að tala um það hvernig á að tækla það að lækka vexti og verðbólgu en ég sé ekkert annað í þessari fjármálaáætlun en að hún sé ástæðan fyrir því að Seðlabankinn hækki vexti um 1%.