Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nokkrar athugasemdir. Í fyrsta lagi, vegna þeirra sem eru í leiguhúsnæði, þá nefndi ég það áðan að það væru ýmis úrræði í boði fyrir það fólk til þess að búa í haginn fyrir kaup á húsnæði. Ég nefndi vissulega séreignarsparnaðinn, en ég hefði kannski líka átt að láta þess getið að við erum nýbúin að lögfesta aðra heimild, sem er heimildin til að ráðstafa tilgreindu séreigninni skattfrjálst í sama tilgangi. Þetta er úrræði sem er sérstaklega hugsað fyrir tekjulága til að eiga fyrir höfuðstól í íbúðarkaupum í framtíðinni. Við erum síðan að horfa upp á þá þróun á leigumarkaði að leiguverð hefur ekki haldið í við verðlag frá 2019 og því hefur orðið raunlækkun þar. Ef við horfum til síðustu 12 mánaða hafa laun og leiga hækkað næstum jafn mikið. Að öðru leyti heyrist mér að Samfylkingin sé bara gamla góða Samfylkingin; hærri skattar, meiri útgjöld — meiri skattar og stærra ríki.