Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:46]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki betur en að það sem hæstv. ráðherra segir um ástandið á leigumarkaði byggi fyrst og fremst á þinglýstum leigusamningum sem segja ekki alla söguna um þróunina þar, eins og hæstv. innviðaráðherra hefur raunar bent á. Það er þörf á frekari upplýsingasöfnun, sem hefur því miður staðið í þinginu um árabil og var loksins samþykkt í útþynntri útgáfu fyrir jól.

Annars staðfesti hæstv. fjármálaráðherra bara það sem ég sagði áðan. Öll umfjöllun um tilfærslukerfin í húsnæðismálum er í þátíð hjá hæstv. ráðherra, hann telur bara að þau séu búin að gera svo vel, að fólkið hafi það svo gott og telur enga þörf á frekari aðgerðum. Þetta eru skilaboðin til fólksins sem er fast á leigumarkaði. Þetta eru skilaboðin til fólksins sem hefur tekið óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum og horft upp á greiðslubyrðina rjúka upp úr öllu valdi. Það er alveg hárrétt sem hæstv. ráðherra segir, (Forseti hringir.) að það er og verður stefna Samfylkingarinnar að beita ríkisvaldinu til að skattleggja hæstu tekjurnar og dreifa og jafna lífskjörin í landinu. Það er og verður stefna Samfylkingarinnar, að bæta almannaþjónustuna og jafna kjörin.