Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:00]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili ekki þessari miklu ánægju hv. þingmanns með þá útgjaldaramma sem við sjáum í heilbrigðismálum í þessari áætlun. Ég hlakka til að fara betur yfir þessa ramma með stjórnendum heilbrigðisstofnana og skoða hver hin raunverulega aukning er til rekstrarins á næstu árum. Ég er líka ósammála því, varðandi heilbrigðiskerfið og þessa grunnþjónustu, að það sé vel til fundið að vera með aðhald þar eða að taka út einhvern sparnað þar. Höfum það í huga að aðhaldsmarkmiðin í þessari áætlun er eitt, en það er líka aðhald sem felst í þessari fjársveltistefnu, sem birtist í því sem er ekki gert í áætluninni. Það er ekki verið að stíga einhver markviss skref til að fjölga hjúkrunarrýmum og létta þannig á spítölunum. Það er ekki verið að setja aukna fjármuni til að gera það eftirsóknarverðara að starfa við heilbrigðisþjónustu. Við vitum að það er eitthvað sem kostar peninga. Þetta er þannig allt eitthvað sem ég held að við verðum að horfa til í vinnunni og ég hlakka til að sitja fundi fjárlaganefndar með hv. þingmanni.