Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:02]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mér finnst svo fallegt hvernig við þökkum hvort öðru fyrir ræður sem við erum svo innilega ósammála. Maður hefur auðvitað heyrt þennan söng áður um aldurssamsetninguna og það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir, við erum yngri þjóð en aðrar Norðurlandaþjóðir. En þá gæti ég nefnt ýmsa aðra þætti á móti sem ættu einmitt að valda því að útgjöldin þurfi að vera hærri hér á landi. Við erum mjög fámennt land og strjálbýlt og erum þar af leiðandi óhagkvæmari rekstrareining en heilbrigðiskerfin á hinum Norðurlöndunum. Verðlagið er hátt hérna. Það hefur auðvitað áhrif á aðföng og reksturinn í heild. Jú, við verðum að ræða þetta í samhengi við aldurssamsetningu en þá verðum við líka að horfa til allra hinna þáttanna sem hafa áhrif og verður að taka með í reikninginn.