Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:05]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki staðið á okkur jafnaðarmönnum að leggja til lausnir. Við lögðum t.d. til 17 milljarða tekjuöflun við afgreiðslu síðustu fjárlaga. Það er heilt prósent af vergri landsframleiðslu. Það var nú bara hæðst að því og hæstv. fjármálaráðherra talaði um að við værum greinilega haldin einhverri öfund gagnvart ríkasta fólkinu í landinu. Ríkisstjórnin skellti sem fyrr skollaeyrum við ákalli okkar um sanngjarnt aðhald í anda jafnaðarmennsku. Hins vegar samþykkti ríkisstjórnin t.d. breytingartillögu mína og annarra um að hækka eignarskerðingarmörk vaxtabóta og af því að hæstv. ráðherra talaði hér um heimili í erfiðri stöðu þá er það nú sannarlega breyting sem hjálpaði þeim, lausn frá okkur sem tekið var vel í hér á þingi. Í ræðu minni nefndi ég aðra lausn sem ég ætla að biðja hv. formann efnahags- og velferðarnefndar um að íhuga sérstaklega, sem er að hækka hámark vaxtabóta fyrir heimilin sem vaxtahækkanirnar leggjast þungt á. (Forseti hringir.) Við höfum líka talað fyrir leigubremsu sem ég held að væri mjög mikilvæg réttarbót fyrir fólk sem er fast á leigumarkaði þannig að það stendur ekki á okkur. (Forseti hringir.) Ef stjórnarliðar vilja að við einhvern veginn leiðum samtalið og leggjum til lausnirnar og (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin taki bara við þeim þá er ég meira en til í það og fagna því, en flýti mér nú úr pontu.