Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:07]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við lestur fjármálaáætlunar þeirrar sem hér er til umræðu er það fyrsta sem vekur athygli hve ómarkvisst og lítið ríkisstjórnin ætlar sér að gera til að berjast gegn verðbólgunni. Augljóst er að þar eiga aðrir að axla ábyrgð og taka slaginn við verðbólgudrauginn sem aftur er kominn á kreik svo um munar. Við síðustu stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands sagði seðlabankastjóri: Við getum ekki beðið eftir neinum öðrum, og sagði að öll hjálp væri vel þegin. Við hverja á seðlabankastjóri? Jú, hann er þarna að biðja um hjálp frá fjármálaráðherra sem fer með ríkisfjármálin. Seðlabankastjóri átti við það í ummælum sínum að Seðlabanki Íslands gæti ekki beðið eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgunni. Orðrétt sagði seðlabankastjóri, með leyfi forseta:

„Við því þurfum við að bregðast. Öll hjálp sem við fáum frá fjárlögum ríkisins er vel þegin en við erum ekki að bíða eftir því, með neinum hætti.“

Það eina sem seðlabankastjóri gerir hins vegar eru glórulausar vaxtahækkanir sem bitna verst á skuldsettum heimilum, fólki sem er að greiða af húsnæðislánum sínum. Seðlabankastjóri er að vinna að því að koma á meiri háttar kreppu í landinu hjá venjulegu fólki, millitekjuhópum og þeim tekjulægstu. Ekki sér fyrir endann á þeirri kreppu. Hvernig væri að horfa til íbúa þessa lands sem að stórum hluta bera verðbólguáhættu af lánum sínum? Það er ekki nóg að horfa á excel-skjalið og tala um neikvæða raunvexti. Fjármagnseigendur bera einnig ábyrgð á að ávaxta fé sitt og setja það í arðbærar fjárfestingar. Á undanförnum árum hafa verið neikvæðir raunvextir í Skandinavíu. Til hvers? Jú, til þess að knýja fjármagnseigendur til að fjárfesta í atvinnulífinu en ekki bara að treysta á bankann og að háir stýrivextir ávaxti fé þeirra.

Í fjármálaáætlun fjallar fjármálaráðherra um baráttuna gegn verðbólgu sem sameiginlegt verkefni. Orðrétt segir í fjármálaáætlun, með leyfi forseta:

„Til skemmri tíma er fjármálaáætlun því ætlað að leggjast á sveif með Seðlabankanum við að ná verðbólgu sem fyrst aftur að markmiði.“

Leggjast á sveif með Seðlabankanum, heitir það. Hvernig er nú ríkissjóður að leggjast á sveif með Seðlabankanum í baráttunni gegn verðbólgunni? Hér skal talið upp það sem ríkisstjórnin ætlar sér að gera til að leggja sitt af mörkum, leggjast á sveif með Seðlabankanum.

1. Hækkun tekjuskatts lögaðila um 1%, bara á árinu 2024. Er það allt og sumt, 1%? Hefði ekki verið nær að hækka bankaskattinn aftur í fyrra horf?

2. Lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna endurbóta á húsnæði úr 60% í 35%. Samtök iðnaðarins hafa brugðist við þessu og þegar sagt að þetta muni leiða til hækkunar á verði íbúða, líklega um 3–5% verðhækkun. Þetta er ekki að slá á verðbólguna, virðulegur forseti.

3. Draga úr stuðningi við rafbílavæðingu. Í raun er þetta þegar boðuð aðgerð og því ekki til komin vegna verðbólgunnar.

4. Hækkun fiskeldisgjalds. Það er þegar boðuð aðgerð og ekki komin til vegna verðbólgunnar, bara sanngjarnt endurgjald til þjóðarinnar, auðlindarenta.

5. Hækkun veiðileyfagjaldsins einhvern tímann á seinni árum áætlunarinnar. Þetta hefði mátt græja fyrir lifandis löngu. Í raun er skammarlegt hvað þjóðin fær lítið fyrir aðgang stórútgerðarinnar að auðlindinni.

6. Almenn aðhaldskrafa er hækkuð úr 1% í 2%. Vonandi skilar þetta einhverju en hér er varla um að ræða aðgerð sem slær á verðbólguna. Nú á að leggja á 0,5% aðhaldskröfu á skóla, það er varhugavert í ljósi þess hve höllum fæti menntakerfið okkar stendur á alþjóðavísu. Við skulum ekki fjalla ógrátandi um lestrarkunnáttu barna og ungmenna í þessu landi og mætti fjalla um það hér í löngu máli.

7. Það á að fækka fermetrum í Stjórnarráðinu. Þetta eru áform sem hafa lengi legið fyrir, frá kosningum, og eru varla að fara að slá á verðbólguna.

8. Sameining stofnana. Enn eitt atriðið sem er talið upp sem aðgerð gegn verðbólgunni en er í raun löngu fyrirhugað og kemur fram í stjórnarsáttmálanum.

9. Stafvæðing sem stuðlar að aukinni framleiðni og skilvirkni. Hér er ýjað að því að hægt sé að fækka störfum, jafnvel að því marki að einungis þurfi að endurráða í helming þeirra stöðugilda sem losna við eftirlaunaaldur fólks á næstu fimm árum. Hvað er ríkið að gera í dag ef helmingur starfsfólksins er í raun óþarfur, ég bara spyr? Hvernig getur það staðist?

Þetta er allt og sumt, þessi níu atriði sem ég hef talið upp. Þessar aðgerðir, ef svo mætti kalla, hafa þegar vakið hörð viðbrögð enda munu þær engan veginn slá á verðbólguna. Bæði framkvæmdastjóri ASÍ og framkvæmdastjóri SA hafa gagnrýnt aðgerðaleysið sem felst í þessari áætlun. Forseti Alþýðusambands Íslands segist sakna þess að sjá ekki í fjármálaáætluninni að gripið sé inn í og fjármagn sótt þar sem það sé að finna og nefnir til að mynda bankaskatt og fleira. Með leyfi forseta, langar mig að vitna hér í orð forseta Alþýðusambands Íslands, Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar:

„Mín fyrstu viðbrögð eru þau að það er í rauninni ekkert sem að við sjáum í þessu sem að mun slá á verðbólgu núna á þessu ári, þvert á móti eru atriði þarna inni sem eru frekar til þess að ýta undir verðbólgu á komandi mánuðum og fram á næsta ár og það eru auðvitað gríðarlega mikil vonbrigði. Það er ekki verið að grípa til aðgerða gagnvart heimilum landsins, þeim atriðum þar sem vaxtabyrðin hefur aukist verulega og kannski vandamálin eru hvað mest. Það er ekkert sem við sjáum hvað þetta varðar.“

Hvorki framkvæmdastjóri SA, Samtaka atvinnulífsins, né forseti Alþýðusambands Íslands telja að nógu langt sé gengið í að verjast verðbólgunni í fjármálaáætluninni. Tekið er undir þau orð hér. Forseti ASÍ hefði viljað sjá bremsu á húsaleigu og lækkaða skatta á ýmsum vörum og framkvæmdastjóri SA hefði viljað sá flatan niðurskurð hjá ríkinu.

Ljóst er að við verðum að ná verðbólgunni niður strax á þessu ári ef við ætlum að ná að vernda fjölskyldur í landinu, ellegar munu hörmungarnar dynja yfir. Fátækt mun aukast og heimili munu fara á nauðungaruppboð áður en langt um líður og félagslegu hörmungarnar sem því fylgja verða ómældar.

Flokkur fólksins hefur lagt til fjölda aðgerða sem myndu vinna gegn verðbólgunni en því miður hafa ríkisstjórnarflokkarnir lítinn áhuga á hugmyndum annarra. Við höfum lagt til frystingu á höfuðstól verðtryggðra íbúðalána, hækkun bankaskatts, hækkun veiðileyfagjalds, húsnæðisliðinn út úr vísitölunni, leigubremsu — sem sumir flokkar studdu ekki en eru núna miklir stuðningsmenn þess og tala fyrir því, svo það sé tekið fram — frystingu krónutöluskatta og fleiri atriði má nefna.

Ég vil taka sérstaklega til umfjöllunar þingsályktunartillögu Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, um staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóði. Með því að afnema þá undanþágureglu skattkerfisins þar sem kveðið er á um að skattur skuli ekki greiddur fyrr en við útgreiðslu lífeyris er hægt að auka skatttekjur ríkissjóðs um meira en 70 milljarða ár hvert og slá á þenslu sem því nemur. Fjármunina er hægt að nýta til að fara í langþráða endurskoðun almannatryggingakerfisins og draga úr uppsafnaðri kjaragliðnun. Þannig væri hægt að leggja verndarhendi yfir þá hópa samfélagsins sem höllustum fæti standa gagnvart verðbólgunni. Við höfum ítrekað vakið athygli á þessari leið sem myndi einmitt hjálpa þjóðinni mikið í baráttunni við verðbólguna en því miður virðist ríkisstjórnin ætla að sitja aðgerðalaus andspænis verðbólgunni.

Við erum flest í þessum sal sammála um að helsta viðfangsefni ríkisfjármálanna um þessar mundir sé verðbólgan. Við megum engu að síður ekki gleyma hinum viðfangsefnum ríkisfjármálanna. Það gerist svo gjarnan þegar ein krísa kemur upp að þá missa stjórnmálin sjónar á hinum vandamálum samfélagsins. Við megum ekki gleyma þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir sem voru þegar orðin áhyggjuefni fyrir komu Covid. Hér er ég að ræða um atriði eins og vaxandi ójöfnuð og stéttaskiptingu í samfélaginu, vandamál sem hefur aðeins vaxið með verðbólgunni, mönnunarvanda heilbrigðiskerfisins og langa biðlista eftir heilbrigðisþjónustu, fráflæðisvanda Landspítalans og hnignun menntakerfisins. Ég tel að hnignun menntakerfisins sé stærsta vandamál íslensks samfélags í dag og ekki síst ónóg lestrarkunnátta og ömurlegar lestrarkennsluaðferðir sem er beitt í grunnskólum landsins.

Ég get ekki séð að ríkisstjórnin ætli að vinna gegn þessum vandamálum á tíma fjármálaáætlunar þeirrar sem hér er til umfjöllunar sem nær yfir árin 2024–2028. Þá er það rannsóknarefni fyrir fjárlaganefnd hvort fjármálaáætlun þessi geri Sjúkratryggingum kleift að endurnýja samninga við heilbrigðisstarfsfólk. Ekki er langt um liðið frá því að forstjóri Sjúkratrygginga sagði upp störfum. Í máli hennar kom fram að hún taldi ókleift fyrir Sjúkratryggingar að framkvæma þau verkefni sem stofnuninni hefðu verið falin miðað við þær fjárveitingar sem stofnunin hefði úr að spila. Ég efast um að þessi áætlun greiði götu fyrir samningagerð við sjúkraþjálfara og sérgreinalækna en vert er að ítreka að vegna samningsleysis við þessar stéttir þarf almenningur að borga sjálfsagða heilbrigðisþjónustu dýrum dómum. Hér má einnig benda á að núna eru líkur á auknu atvinnuleysi. Bara í fréttum í dag voru fréttir um tvær hópuppsagnir, annars vegar hjá Heimkaupum og hins vegar á Fréttablaðinu.

Ríkisfjármálin þurfa að vinna gegn verðbólgunni en jafnframt vernda velferðarkerfið okkar og fátækustu samfélagshópa Íslands, þar á meðal öryrkja og aldraða. Þar eru fátækasta hóparnir, meðal aldraðra og meðal öryrkja. Ég er ekki að segja að allir aldraðir séu fátækir, síður en svo. Þetta er erfitt viðfangsefni en alls ekki ógerlegt. Hvað varðar endurskoðun almannatrygginga er tilgreint að á tímabili áætlunarinnar verði 16,3 milljörðum varið í það verkefni. Fjármagnið virðist ekki eiga að koma inn í málaflokkinn fyrr en árið 2025 þar sem fjárheimildir vegna örorku almannatrygginga á næsta ári verða þær sömu og í ár. Því er um að ræða viðbót um 4 milljarða á ári. Það er ekki nóg til að leiðrétta kjör öryrkja með tilliti til uppsafnaðrar kjaragliðnunar og mér er til efs að þessir fjármunir muni duga til að skila þeim úrbótum sem stjórnvöld hafa lofað öryrkjum.

Virðulegur forseti. Fjármálaráðherra skilar auðu hvað þessi viðfangsefni varðar og hefur skilað þinginu drögum að fjármálaáætlun sem gerir lítið til að sporna gegn verðbólgu, eins og hér hefur verið rakið, heldur boðar hnignun velferðarkerfisins og hunsar vaxandi vanda okkar fátækustu samfélagshópa; eldri borgara og öryrkja. Það er þetta innihald fjármálaáætlunar sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt hér fram í dag fyrir Alþingi sem er gagnrýnisvert. Ég vil taka fram að ég hef ekki fengið fullnægjandi svör við því hvernig og hversu mikið hæstv. fjármálaráðherra telur að hann geti raunverulega lagt af mörkum til að berjast gegn verðbólgunni. Mun seðlabankastjóri í framtíðinni, á næsta stýrivaxtadegi, þurfa að hækka stýrivexti? Þá mun hann örugglega vísa til þess að hann óski eftir hjálp eina ferðina enn, þau séu að gera þetta ein. En frekari stýrivaxtahækkanir munu leggja heimilin í landinu í rúst. Ríkisfjármálin verða að berjast gegn verðbólgunni þannig að hægt sé að lækka stýrivexti sem þegar hafa gengið fram úr öllu hófi.