Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:27]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Það er náttúrlega langtímaverkefni að auka fjármagnið í heilbrigðiskerfinu. Ég tel að ágætismenn hafi verið ráðnir inn eins og Björn Zoëga frá Karolinska-sjúkrahúsinu í Svíþjóð; hann kom aftur sem ráðgjafi inn á Landspítalann. Ég veit, fjölskyldumeðlimur hefur unnið á Landspítalanum, að það er alveg rétt að það þurfa fleiri að vinna á gólfinu, það er ekki nóg að það séu bara launahækkanir gefnar af því að þú ert orðinn einhver stjóri og vinnur bak við tölvuskjáinn. Það eru vissulega skipulagsvandamál líka. En við lifum í blönduðu hagkerfi og ég tel að við eigum að líta til Norðurlandanna hvað varðar rekstur heilbrigðiskerfisins. Þau ríki hafa verið að fikra sig inn á það að gera kerfið frjálsara fyrir einkaaðila og þeir hafa komið öflugir inn í rekstur heilbrigðiskerfisins. Ég trúi á bæði. Ég trúi bæði á það að það sé öflugur ríkisspítali, öflugt þjóðarsjúkrahús, og svo verði í kringum það líka einkaklíníkur þar sem læknar geta verið með skurðaðgerðir. Ég þekki það bara úr eigin fjölskyldu og þekki aðeins til þessa rekstrar. Það er þetta blandaða hagkerfi sem við eigum að byggja á, algerlega. En við getum svo auðveldlega gert þetta, við erum sjötta ríkasta þjóð OECD. Þetta er ekkert mál fyrir okkur. Ef við bara gerum þjóðarátak í þessu og einbeitum okkur að því þá getum við losnað við þessar fréttir um ástandið á bráðamóttökunni, ástandið á Landspítala Íslands. Það þarf bara vilja til verksins svo það liggi fyrir. Það er ekki svo flókið. Þetta snýst líka um það hvaðan peningarnir ættu að koma og ég get nefnt þetta: Hækkum veiðileyfagjaldið. Tökum bankaskattinn upp aftur. Það er alveg augljóst, ef maður situr í fjárlaganefnd, að Landspítali Íslands er undirfjármagnaður. Hann var það í fyrstu tillögu að fjárlagafrumvarpinu, það kom svo breytingartillaga upp á 2 milljarða sem áttu að fara í grunnreksturinn. Ég spurði: Í hvað á þetta að fara? Ég fékk ekki skýr svör um það. (Forseti hringir.) Það var augljóslega bara að fara í reksturinn af því að hann var undirfjármagnaður. Landspítali Íslands er undirfjármagnaður.