Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:51]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er hv. þingmaður að spyrja mig ákveðinna spurninga sem ég á afskaplega erfitt með að svara. Ef ég man rétt, úr umræðunni hér fyrr í dag, þá minnir mig að hæstv. fjármálaráðherra hafi í sjálfu sér svarað þessu lauslega, en auðvitað tók hann undir það sama og ég bendi hér á. Ég er ekki með þetta fyrir framan mig og get ekki svarað þessu og er bara algerlega heiðarlegur með það.

En aðeins aftur að aðhaldi og viðspyrnu til að takast á við verðbólguna. Vissulega er það hárrétt hjá hv. þingmanni að 1% stýrivaxtahækkun tekur gríðarlega í, en það er líka öflugasta verkfærið í baráttunni við verðbólguna meðan menn gefa ekki eftir. Og sennilega er það sérstaklega vegna þess að enn er mikið fjármagn á fullri ferð í hagkerfinu hjá okkur. Ef ekki hægist á vil ég bara undirstrika það og ítreka að fordæmi ríkisins með þessari fjármálaáætlun eru skýr skilaboð til íbúa þessa lands um að menn eigi að hægja á. Það er gert í þessari áætlun. Það er hægt á, en grunnþjónustan er varin. Það er stóra málið í þessu.