Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:57]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er raunverulega þannig að við hefðum ekki þurft að fresta þessari áætlun vegna þess að hún á eftir að breytast enn einn ganginn í meðförum. Og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, við munum breyta þessu og það er auðvitað það sem er alþekkt.

Mig langar, þó að ég sé mun uppteknari af gjaldahliðinni, að spyrja hv. þingmann út í nokkuð sem viðkemur tekjuhliðinni af því að við vitum að þarna eru ýmis gjöld. Við vitum líka að það er hópur fólks sem er verst settur vegna þeirrar stöðu sem er í efnahagslífinu. Við vitum líka að það þarf að vernda þá verst settu, það er eðlilegt, og það verður gert. En í ljósi þess að það er lítið um hluti eins og auðlindagjöld, það er ekkert um hvalrekaskatt, ef ég hef lesið rétt, sem mér hefur kannski þótt vera eitt helsta mál Framsóknarflokksins þegar talað er um tekjuöflun, langar mig að spyrja hv. þingmann út í fjarveru þess skatts, sem ég hélt að Framsóknarflokkurinn setti á oddinn. Mig langar líka að spyrja hv. þingmann, í ljósi þess að auðlindagjöld eru ekki mikil þarna, (Forseti hringir.) þ.e. einhver stór skýr mynd — ég er alls ekki að tala um veiðigjöldin sérstaklega, ég er að tala um ferðaþjónustuna, ég er bara að tala um þennan þátt í efnahagslífinu sem eru (Forseti hringir.) auðlindagjöld. Ef það á að vernda hina verst settu, hver eru skilaboðin til millistéttarinnar? (Gripið fram í.) Hvað á að gera (Forseti hringir.) fyrir millistéttina ef ekki er verið að huga að ríkisútgjöldum á gjaldahliðinni? Hver eru skilaboð þingmanns Framsóknarflokksins til millistéttarinnar í þessari áætlun?