Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:00]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að spyrja hv. þingmann og ágætan félaga úr fjárlaganefnd aðeins út í útgjaldahliðina, mér finnst hún vera stóra áhyggjuefnið. Með því að kæla útgjöldin núna, með því að minnka umsvif ríkisins, erum við að hjálpa heimilunum mest og best. Það er verðbólgan og vaxtahækkanir sem henni fylgja sem eru að fara verst með unga fólkið og barnafjölskyldurnar sem eru með heimilin sín á lánunum. Auðvitað er það þannig, og ég held að það sé algjör einhugur um það í þessum sal, að við viljum öll verja almannaþjónustuna, heilbrigðiskerfið, almannatryggingarnar, löggæsluna, en þetta eru, held ég, um 60% útgjalda, þannig að það er nægt svigrúm til þess að kroppa annars staðar.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann deili þessum áhyggjum mínum af því að við gætum verið að stíga stærri skref hvað varðar útgjöldin. Ég bendi á ummæli frá Alþýðusambandinu, ummæli frá Samtökum atvinnulífsins þar sem það er sagt fullum fetum að ekki sé verið að stíga nægilega stór skref. Við heyrðum gagnrýni úr þessari átt þegar við vorum að vinna fjárlögin hér síðast í haust. Niðurstaðan bar þess ekki merki að það væri verið að leggja mikið við hlustir því að hallinn jókst bara eftir því sem umræðurnar urðu fleiri. Seðlabanki Íslands gekk þá svo langt að segja að hæstv. fjármálaráðherra væri beinlínis að gera honum verkið erfiðara í glímunni við verðbólguna.

Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að það sé svigrúm til þess að stíga stærri skref varðandi aðhaldið eða verður ekki lengra komist?