Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:22]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða framsögu og sömuleiðis fyrir mjög gott samstarf í fjárlaganefnd. Mig langaði til að spyrja hann út í verðbólguna sjálfa og verðbólguhorfur. Bara síðast í dag voru fréttir af því í Ríkisútvarpinu að verðbólga sé að lækka hraðar á evrusvæðinu en hér heima. Ég ætla að hlífa hæstv. fjármálaráðherra við hjali mínu um gjaldmiðilinn í þeim efnum en mig langaði til að ræða aðra punkta. Við sjáum t.d. að fjármálaráðherra Svíþjóðar á samtal við matvörukeðjurnar, gerir athugasemdir við að matvara sé að hækka of skarpt umfram verðbólgu. Þessar verslanir bregðast við með þeim hætti að þær bakka. Mig langaði því til að heyra sjónarmið þingmannsins um aðrar aðgerðir, bæði beinar og óbeinar, sem geta unnið með okkur. Ef við ætlum öll að róa í sömu átt held ég að markmiðið ætti auðvitað líka að vera að nýta öll verkfæri. Samkeppniseftirlitið hefur t.d. talað um það, og það er auðvitað augljós sannleikur, að virk samkeppni sé lykilatriði og mjög veigamikið og þýðingarmikið verkfæri í baráttunni við verðbólgu. Eitt helsta einkenni íslensks markaðar er þessi útbreidda fákeppni sem birtist neytendum yfirleitt alltaf með þeim hætti að verðlag verður hærra. Það skiptir eiginlega ekki máli hvar við komum niður, í matvöru, bensíni, tryggingum, bankamálum. Er þingmaðurinn þeirrar skoðunar að við ættum að breikka samtalið um aðgerðir gegn verðbólgu?