Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Að mínu mati vantar einmitt ákveðna grunnforsendu í samfélagið hjá okkur. Það er svarið við þeirri spurningu hvað það kostar að lifa. Við erum með framfærslureiknivél, viðmiðunarreiknivél, sem gleymir t.d. að taka húsnæðiskostnað inn í dæmið. Og þegar við fáum svarið við því hvað það kostar að lifa þar sem húsnæðiskostnaðurinn er inni, ekki bara framfærslan án húsnæðis, þá getum við farið að svara ýmsum öðrum spurningum. Hvar liggur t.d. jaðarinn hvað það varðar að fólk geti safnað sér fyrir innborgun í íbúð miðað við núverandi aðstæður? Það eru þannig greiningar sem við þurfum. Við þurfum ekki greiningar á því hver heildarþróun ráðstöfunartekna er. Það er gjörsamlega gagnslaust fyrir okkur í raun og veru. Það er vel rúmlega helmingur fólks sem er með tekjur sem það á afgang af um hver mánaðamót en ekki hinir. Við þurfum ekkert að hafa neitt sérstaklega miklar áhyggjur af þeim sem eiga afgang um hver mánaðamót. Það er hinn hlutinn sem við þurfum að horfa á og skilja hvar og hvers vegna vandamálin eru þar. Er það einfaldlega vegna ýmiss konar stefnumörkunar sem hvetur til eftirspurnar á húsnæðismarkaði, sem hleypir upp verðinu þar, og í raun er kannski heil tíund í tekjustiganum sem dettur bara allt í einu úr því að geta safnað sér fyrir íbúð á skynsamlegum fjölda ára. Er það málið? Við vitum það ekki af því að við fáum ekki svoleiðis greiningar. Það vantar þessa hugsun, að það sé bara hugsað: Hvernig er kerfið í heild? Hvar eru mörkin sem við þurfum að miða við? Og ef fólk ákveður að lifa einhvern veginn öðruvísi en viðmiðin eru þá er það náttúrlega þeirra mál. En þá gætu stjórnvöld alla vega sagt: Ef þú ert á þessu tekjubili muntu ná að fjárfesta í íbúð á þetta mörgum árum, (Forseti hringir.) ef ekkert óvænt gerist og ýmislegt svoleiðis. Það vantar svona viðmið í fjármálastefnuna og áætlunina, að mér finnst, þessar mælingar, svona mælikvarða.