Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir ágæta ræðu þar sem víða var komið við. Varðandi framsetningu fjármálaáætlunar og helstu áhersluatriði þá held ég að við eigum að stefna að því að ná góðum samhljómi hér á þinginu um það hvernig við viljum hafa framsetninguna. Ég get í sjálfu sér tekið undir það að við þurfum að halda áfram að bæta kafla sem horfa til framtíðar og eru um stefnumörkunina og hvernig við ætlum að mæla árangur og slíka hluti. Ég held að það eigi í raun og veru við alls staðar í kerfinu hjá okkur. Það er risavaxið verkefni að mæla nákvæmlega árangurinn af fjárheimildum. Það er auðveldara um að tala en í að komast. Hins vegar held ég að við verðum að halda í það grunneðli og þá grunnhugmynd að fjármálaáætluninni sé ætlað að marka rammann fyrir næstu fjárlagagerð og framhaldið þannig að við höfum þá rammana í raun og veru tilbúna þegar fjárlagasmíðin hefst eftir að fjármálaáætlun hefur verið afgreidd.

Mig langar aðeins að tala hér um verðbólguvæntingar. Ég get bara sagt alveg eins og er að við erum ekki í stanslausum samskiptum við Seðlabankann í aðdraganda þess að hann tekur ákvarðanir um vexti. Peningastefnunefndin er algerlega sjálfstæð í því og eins og ég horfi á þetta hefur ekki verið horft til þess sem er í þessari áætlun. Hins vegar eru allir að fylgjast með því sem við erum að gera og ef við horfum bara á það sem er að gerast á mörkuðunum í dag þá eru verðbólguvæntingar að lækka. Vextir á ríkisskuldabréf eru að lækka í dag og ef við horfum á þetta í aðeins lengra samhengi þá hefur það sem gerst hefur undanfarinn mánuð orðið til þess að lækka væntingar um verðbólgu um heilt prósentustig til 5 ára og vextir á lánum til ríkissjóðs lækkuðu í dag úr 7% í 6,5%, hér erum við að horfa á lán til 5 ára. Við erum bara í þessum töluðu orðum að hafa áhrif á þessa þætti.