Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég spurði mig þeirrar spurningar, þegar ég hafði séð nokkrar svona fjármálaáætlanir og fjárlög, af hverju þingið hefði aldrei gert ákveðnar kröfur um framsetningu, um hvaða upplýsingar þingið þyrfti á að halda til að geta tekið einhvers konar ákvörðun um það hvort verið væri að fjármagna það sem stendur í lögum. Mér finnst það t.d. mjög augljóst verkefni þingsins að spyrja: Er verið að framfylgja lögum um aðstoð vegna langvarandi fötlunar? Svarið er nei, við vitum að það eru ákveðnar frestanir á því. En við vitum líka að ekki var fjármagn til þess að uppfylla þann fjölda NPA-samninga sem voru í lögum og vísað í einhverjar reiknireglur fram og til baka um það af hverju svo var ekki. En lögin eru samt skýr um fjölda samninga. Svo kom bara fjármagnið sem var eftir einhverri reiknireglu sem stóðst ekki. Það var á þessum forsendum sem ég byrjaði aðeins að reyna að sparka í þetta í fjárlaganefnd. Við verðum að gera einhverjar kröfur til framkvæmdarvaldsins um það hvaða upplýsingar eru settar fram í fjárlögum og fjármálaáætlun. Það er ekki bara framkvæmdarvaldsins að ákveða hvað eigi að sýna þinginu. Það er á þeim forsendum sem ég er að reka á eftir því að við bætum framsetninguna varðandi skýrleika gagnvart þinginu og þeim aðilum sem eru að gefa okkur umsagnir.

Jú, vextir eru að lækka en það er skiljanlegt að einhverju leyti. Næstu fimm mánuði eru að detta út stórir ársverðbólgumánuðir. Vonandi koma lægri vaxtamánuðir í staðinn. Langtímahorfur í verðbólgu eru vissulega aðeins á leiðinni niður á við en hversu langt á leið niður á við, um það er ekkert sagt í fjármálaáætluninni. Ég sé ekki að það sem stendur í þjóðhagsspánni standist neitt.