Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra og hv. þingmönnum fyrir góða umræðu í dag. Þessi fjármálaáætlun kemur heim og saman við metnað og vilja ríkisstjórnarinnar til að treysta félagslega mikilvæga innviði og standa vörð um þau sem minnst hafa færin til að takast á við verðbólguna. Það er lykilatriði, eins og við vitum öll, og hér hefur það verið margrætt í dag, að vinna gegn verðbólgunni sem magnast hefur upp á síðustu mánuðum. En eins og kom líka fram hér rétt áðan þá eru teikn á lofti um að verðbólgan hafi hugsanlega náð hámarki og þar með má segja að aðgerðir stjórnvalda hafi nú haft eitthvað með það að gera enda er það ábyrgðarhluti stjórnvalda að leggjast á sveif með Seðlabankanum við að ná tökum á verðbólgunni. Hér hefur verið vitnað í orð seðlabankastjóra í gær á ársfundinum, hann taldi þessa fjármálaáætlun vera innlegg í þá vinnu. En þetta ástand er ekki bara hjá okkur. Nágrannaríkin eru líka að takast á við verðbólgu og háa vexti, sum hver, flestöll við verðbólguna. Eins og við þekkjum hefur innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu haft mikil áhrif á þróun verðbólgu síðasta árið. Hagvaxtarskeiðið í kjölfar heimsfaraldurs hér á landi ýtti undir þensluna. Verðbólgan hefur hér mikil áhrif, eins og við þekkjum, á húsnæðislán, afborganir og líka matarkörfuna.

Við finnum því öll vel fyrir áhrifum hennar en jákvæð þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem kom út í gær, gefur fullt tilefni til bjartsýni þar sem gert er ráð fyrir að hún lækki jafnt og þétt næstu mánuði og verði að meðaltali komin niður í 4,6% á næsta ári og svo í 3% árið 2025. En þrátt fyrir þetta er mikilvægt að við verjum viðkvæma hópa fyrir áhrifum verðbólgunnar nú um stundir hvað best við getum. Örorkulífeyrir almannatrygginga hækkar vegna þessa eins og við gerðum núna síðast, fyrir yfirstandandi ár, við grípum líka til almennra aðgerða gegn verðbólgunni sem miða að því að verja kjör þessara hópa, viðkvæmra hópa, örorkulífeyrisþega, leigjenda og barnafjölskyldna.

Virðulegi forseti. Það er ljóst að við snúum þessu ekki við átakalaust. Almenn aðhaldskrafa verður aukin úr 1% í 2% á árinu 2024 og reyndar 3% á Stjórnarráðið, 0,5% á skóla árið 2024 en ekkert eftir það. Ekki verður aðhald á heilbrigðis- og öldrunarstofnanir eða almanna- og sjúkratryggingar, dómstóla, fangelsi og lögreglu. Það tel ég afar brýnt enda mikilvægt að styðja áfram vel við þessar stofnanir. Sem betur fer er bæði afkoma og skuldastaða ríkissjóðs mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og eins og hæstv. fjármálaráðherra fór yfir náum við þeim mikilvæga árangri að afgangur verður af frumjöfnuði ríkissjóðs í fyrsta sinn síðan árið 2019. Það er ástæða til að nefna það. Það er kannski merki um þenslu sem er til staðar í hagkerfinu og þennan bratta viðsnúning sem hefur orðið hjá okkur. Við þurfum að takast á við þensluna. Við þurfum að vinna með peningamálastjórninni til þess að ná tökum á ástandinu, bæði verðbólgu og frekari hækkun vaxta. Seglin eru dregin saman á gjaldahliðinni með minni fjárfestingarumsvifum hins opinbera og ég tel að það sé skynsamlegt. Það er dýrt í þessu árferði að fara í stórar og miklar framkvæmdir.

Sjálf hef ég talað mikið fyrir auknum umsvifum á tekjuhlið ríkissjóðs, ef svo má komast að orði. Í þessari fjármálaáætlun eru boðaðar nokkrar veigamiklar hækkanir sem skipta sköpum fyrir ríkissjóð en ekki síður fyrir réttláta skattheimtu. Til skemmri tíma hækka álögur á fyrirtæki. Í því felst að tekjuskattur lögaðila er hækkaður upp í 21% á næsta ári og það er ástæða fyrir því, við settum mikla peninga út í hagkerfið í Covid og ég tel að fyrirtækin geti staðið undir því að taka á sig viðbótarálögur. Atvinnuhorfur hér á landi eru með besta móti og ég tel löngu ljóst að aðgerðir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í heimsfaraldrinum báru tilskilinn árangur, þær skiluðu sér í þessari öflugu viðspyrnu um leið og áhrif faraldursins dvínuðu ásamt mikilli fjölgun starfa þegar faraldrinum sleppti. Það hefur ekki orðið alls staðar í heiminum eins og við þekkjum svo vel. Þetta sjáum við á tekjuaukningu ríkissjóðs, m.a. vegna skatta af launum sem hafa vaxið með minnkandi atvinnuleysi á síðustu tveimur árum og þar skipta sköpum breytingar á skattkerfinu með þriggja þrepa skattkerfi í réttlátri skattheimtu. Þá hækka ýmis gjöld á aflögufærar atvinnugreinar sem standa sterkum fótum. Hækkun veiðigjaldsins er mikið réttlætismál sem talað hefur verið fyrir um langt skeið. Hækkanir á veiðigjaldi hafa oft verið gagnrýndar vegna áhrifa sem þær kunna að hafa á minni og millistóru útgerðirnar. Hugmyndin er því að hækka frítekjumark þessara útgerðarforma með tilheyrandi ábata fyrir litlar og meðalstórar útgerðir. Þess í stað verður hækkuninni beint að stærri samþættum útgerðum sem hafa yfir að ráða meginþorra aflaheimilda innan kvótakerfisins. Þetta er liður í metnaðarfullum áformum hæstv. matvælaráðherra Svandísar Svavarsdóttur.

Þá er fyrirhuguð hækkun fiskeldisgjalds og einnig eru lagðir talsverðir fjármunir í eftirlit sem ég vil gera hér aðeins að umtalsefni líka vegna þess að það höfum við mikið rætt í fjárlaganefnd og reyndar einnig í atvinnuveganefnd. 2,2 milljarðar verða settir í öflugra eftirlit með fiskeldi og 1,7 milljarðar í fiskeldissjóð. Einnig fær Hafrannsóknastofnunin 3 milljarða á tímabilinu til hafrannsókna og fiskveiðieftirlits því það er mjög mikilvægt. Öflugar hafrannsóknir og þekja í eftirliti með fiskveiðiauðlindinni er eiginlega forsendan fyrir því að íslenskar sjávarafurðir séu samkeppnishæfar á alþjóðamörkuðum og að nýting sjávarauðlinda sé sjálfbær og hún stuðli líka um leið að vexti íslensks atvinnulífs og samfélags.

Á tímabili fjármálaáætlunar verður um 2 milljarða kr. aukning í framlögum til málefnastuðnings í landbúnaði sem ég vil taka fram varðandi kornræktina. Þeim fjármunum verður m.a. varið í verkefni sem snúa að plöntukynbótum, fjárfestingarstuðningi til innviðauppbyggingar kornframleiðslu og þróun í jarðrækt á Íslandi. Allt þetta byggir á aðgerðaáætlun sem ráðherra hefur fengið í hendurnar og með þessum aðgerðum er stefnt að því að styðja við sjálfbærni í matvælaframleiðslu og þar með styrkja stoðir fæðuöryggis þjóðarinnar.

En aftur að tekjunum. Við tökum aftur upp varaflugvallagjald sem er mjög mikilvægt vegna þess að mæta þarf viðhaldi á flugvöllum á landsbyggðinni sérstaklega, það hefur setið eftir í talsvert mörg ár og þetta gjald skilaði því að við gátum gert meira og munum geta gert meira en ella.

Virðulegi forseti. Það hefur víða vakið athygli að ríkissjóður verji 1 milljarði kr. í að niðurgreiða kaup á rafbílum fyrir bílaleigur. Þetta fyrirkomulag á rætur sínar að rekja til fjárlagaársins en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð rík áhersla á stuðning vegna orkuskipta. Þau sjónarmið að dýrir rafbílar auki enn á þensluna eiga rétt á sér. Ég vil þó segja að þetta er mikilvægur liður í þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við höfum gengist undir og lykilatriði í því að minnka bruna jarðefnaeldsneytis hér á landi. Á gildistíma þeirrar áætlunar sem við fjöllum hér um er síðan dregið úr stuðningi við innflutning rafbíla enda höfum við náð talsverðum árangri. Samdráttur í notkun jarðefnaeldsneytis hefur leitt til minni tekna af ökutækjum en skattlagningin miðast við losun koltvísýrings. Þetta hefur leitt til tekjuskerðingar eins og margoft hefur komið fram hér í þessum þingsal vegna afnota af vegakerfinu. Í ljósi þessa verður aukin gjaldtaka á eigendur rafbíla sem samræmist þessum breytta veruleika enda engin ástæða til að þau sem keyra um á slíkum bílum borgi ekki vegna t.d. slita á vegum. Það verður líka lagt gjald á skemmtiferðaskipin sem er löngu tímabært að mínu mati og kemur til með að skila okkur í kringum 700–800 millj. kr. á ári. Það er líka gert ráð fyrir því að gistináttaskatturinn verði tekinn upp aftur.

Virðulegi forseti. Það er gleðiefni að á útgjaldahliðinni aukist framlög til heilbrigðis- og öldrunarþjónustu. Sömuleiðis verður áfram dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni og framlög aukin til sjúkratrygginga og til reksturs nýrra hjúkrunarheimila. Stærsti staki liðurinn er þó fjármagn sem tryggir löngu tímabærar umbætur á örorkulífeyriskerfinu. Þessar breytingar eru umbylting á málefnum öryrkja sem hafa búið við mjög ósanngjarnt kerfi. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir 15 milljarða kr. aukinni fjárveitingu til örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfisins árið 2026 og strax á næsta ári verður hafist handa við þetta og fjárframlag fylgir því. Þetta kemur til framkvæmda með gildistöku boðaðra kerfis- og lagabreytinga hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Inntakið í þessum breytingum er að auka velmegun hóps sem hefur setið lengi á hakanum.

Ég vil líka segja að mér finnst það gleðilegt að verkefnið sem við fjölluðum um á dögunum í þingsal, sem ber heitið Gott að eldast, hlýtur framlög samkvæmt áætluninni. Það er fjölþætt verkefni með samvinnu á milli félagsmálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins og snertir alla anga þess að eldast. Við getum talað um heimaþjónustu, alls konar samþættingu á þjónustu og það að gera fólki kleift að vera lengur heima eða í þeim félagslegu aðstæðum sem það kýs. Þetta snýst um að bæta lífsgæði eldra fólks og inntakið er að auka velmegun í samfélaginu óháð félagslegri stöðu fólks.

Virðulegi forseti. Við höfum átt því láni að fagna að byggja hér upp velferðarsamfélag sem treystir jafna stöðu fólks og þannig viljum við, held ég, allflest hafa það áfram. Nú þegar verðbólgan herjar á þurfum við ábyrga stefnu í fjármálum þar sem ríkissjóður ber þungann á herðum sér en stendur framar öðru vörð um opinbera þjónustu og þau sem minnst bjargráð hafa til að mæta verðbólgunni. Hlutverk ríkisvaldsins í efnahagsstjórn snýst um samfélagið og innviði þess. Þegar harðnar á dalnum er mikilvægt að standa vörð um almannaþjónustuna og forðast í lengstu lög að skerða hana. Skerðing almannaþjónustu bitnar fyrst og fremst á umfangi og gæðum hennar og sagan sýnir að slíkar aðgerðir eru skammdrægar og koma verst niður á þeim sem höllustum fæti standa. Ég tel það heppnast prýðisvel að standa vörð um almannaþjónustuna í þessari fjármálaáætlun og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur stendur vörð um grunnþjónustuna og félagslega mikilvæga innviði. Við hækkum skatta, við erum með tímabundna hækkun á fyrirtæki. Við erum með hækkun veiðigjalda, auknar álögur á fiskeldi ásamt tekjuöflun í ferðaþjónustu. Það skilar okkur réttlátara kerfi og betri skiptingu gæðanna. Það er tilefni til bjartsýni þó að við fetum rólega út úr því efnahagsástandi sem skapast hefur í kjölfar heimsfaraldursins og vegna áhrifa stríðsins. Ég hlakka til að takast á við þetta með félögum mínum í fjárlaganefnd.