Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:56]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það að hér sé einmitt sagt nákvæmlega þetta sem hv. þingmaður las upp segir að við erum öll sammála um það sem hér stendur, og ég vænti þess að hv. þingmaður sé það líka. Hvað varðar stjórnsýslukostnað og hvort hann hækkar eða lækkar á milli áranna tveggja, þ.e. á næsta eða þar næsta ári — mér fannst hv. þingmaður tala um 2026 — þá er 2023 núna. Því tel ég að það sé ekki í sjálfu sér annað undir þar heldur en að verið er, eins og hv. þingmaður þekkir, að reyna að ná utan um þann kostnað sem hægt er að draga saman, hvort sem það er í stjórnsýslu þeirra stofnana sem þarna eru undir eða annars staðar, ekki að það sé vegna þess að sú sem hér stendur eða ríkisstjórnin almennt sé að gera ráð fyrir því að flóttafólki fækki eitthvað sérstaklega hratt. Það væri óskandi. Ég held að við séum líka öll sammála um að það væri óskandi. En í sjálfu sér er ekkert sem bendir til þess, eins og staðan er í heiminum núna, að við megum gera ráð fyrir svo örum breytingum á næstu tveimur eða þremur árum að flóttamönnum fækki gríðarlega mikið. Ég ætla sannarlega að vona að flóttamönnum frá Úkraínu fækki og það náist utan um það ömurlega stríð sem þar er. En við vitum líka að það eru alls konar aðrar ástæður, loftslagsbreytingar og ýmislegt fleira, sem verða til þess að fólk þarf að fara að heiman til að leita sér skjóls annars staðar. Varðandi þessa lækkun þá held ég að ekki sé um annað að ræða en að þetta sé eitthvað sem er endurskoðað árlega, eins og við þekkjum. Þetta plagg er endurskoðað árlega og ég á ekki von á öðru, reynist þörfin meiri en hér er gert ráð fyrir, en að þetta verði skoðað.