Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:57]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það sem ég er kannski að leika mér við að varpa ljósi á hér er hversu miklum fjármunum við erum að verja í kerfi sem snýst einmitt ekki um að aðstoða fólk á flótta, heldur er stjórnsýslulega kerfið sem er annars vegar störf lögfræðinga hjá Útlendingastofnun og annars starfsfólks og síðan sá þáttur sem hefur farið gríðarlega hratt vaxandi á síðustu árum, sem er þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd, þ.e. þessi lágmarksþjónusta sem fólk fær áður en komið er svar við umsókn þess.

Nú er það þannig, með þá einstaklinga sem hafa flúið t.d. Úkraínu og Venesúela, að þær umsóknir fara í ákveðna flýtimeðferð þar sem niðurstaðan er í raun ljós út frá ríkisfangi viðkomandi, sem þýðir að þessir einstaklingar, þessi stóri hópur, í raun þorri allra umsækjenda hér, staldrar ekkert sérstaklega lengi við í því kerfi sem allir þessir milljarðar fara í. Því er ég að leika mér að því að varpa upp þeirri spurningu hvort það væri hreinlega ekki ráð að endurskoða það hversu miklum peningum við erum að verja í kerfi sem sinnir því hlutverki Útlendingastofnunar og kærunefndar að segja nei við fólk. Við erum í rauninni fyrst og fremst að eyða þessum 5,6 milljörðum í það að þjónusta fólk sem bíður hérna, jafnvel árum saman, eftir því að fá neikvætt svar eða eftir því að vera flutt úr landi eftir að hafa fengið neikvætt svar. Þarna er sparnaðar- og niðurskurðartækifæri fyrir ríkisstjórnina upp á marga milljarða, með því einfaldlega að hleypa fólki inn í samfélagið fyrr og hraðar og gefa því frekar tækifæri til að vera þátttakendur. Þetta fólk heyrir undir fjöldann sem, eins og ég las í upphafi, gerir ekkert annað en að styrkja þær undirstöður sem eru nauðsynlegar til að halda uppi samfélagi okkar, velferðarkerfi og öllu því.