Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Við erum með þessa 422 blaðsíðna bók, hún er ansi viðamikil í sögulegu samhengi, meira að segja fjármálaáætlana, sem er mjög áhugavert. Þess vegna tek ég undir það innlegg fjármálaráðherra að við ættum að endurskoða hvernig þetta plagg á að líta út. Mig langaði til að rifja upp með hæstv. formanni fjárlaganefndar þá undirnefnd sem var að reyna að koma saman einhvers konar hugmyndum um það hvernig Alþingi getur gert ákveðnar kröfur um það hvernig við viljum fá þetta, af því að við fáum þetta bara svona. Ókei. Hvað þýðir þetta svo? Það er ekkert smáræðisverkefni að blaða í gegnum það og átta sig á því hvað hitt og þetta þýðir. Við fórum t.d. í smá panik hérna í byrjun árs þegar dómsmálaráðherra kom og sagði: Heyrðu, við ætlum bara að selja hérna landhelgisgæsluflugvélina. Og við erum bara: Ha? Það stendur ekkert um það í neinum áætlunum um neitt. Landhelgisgæslan átti að ná ákveðið miklum árangri samkvæmt mælikvörðum um eftirlitsferðir o.s.frv. sem hefur farið sífellt fækkandi ár eftir ár en var þó eitthvað. Núna er bara búið að stroka það út. Það vantar þá þau markmið á mælikvarðann. Þannig að ég skil ekki hvað er eiginlega í gangi. Það er alltaf stefnumörkun stjórnvalda, þar eru markmið og mælikvarðar þar sem á að vera kostnaðar- og ábatagreining. Þetta er alltaf einhvern veginn að verða verra og verra eftir því sem á líður á mörgum sviðum. Sumt þarna hefur staðist tímans tönn að einhverju leyti en þessar stóru spurningar um það hvernig fjárheimildir sem Alþingi samþykkir virka gagnvart því að sinna lögbundnum verkefnum og að stefna stjórnvalda skili einhverjum árangri — það vantar.