Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst umræðan um sameiningu stofnana og þessa fermetranýtingu mjög áhugaverð, þ.e. að setja fólk meira í opin skrifstofurými o.s.frv. Vísindin þar á bak við eru kannski ekki alveg nógu skýr hvað það varðar að styðja slíkt fyrirkomulag í öllum tilvikum með tilliti til framleiðni. Það er einhver vogarskál á milli þess sem er minni kostnaður og minni framleiðni og hvernig endar það þegar allt kemur til alls? Ég held að við ættum alla vega að skoða það á næstunni hver eru langtímaáhrif þess að troða fólki í sardínudós, það verður kannski dálítið áhugavert. Kannski að eitthvað þarna mitt á milli gæti verið ágætisniðurstaða. Mér finnst hugmyndin um 40% minnkun á fermetrafjölda í húsnæði hjá stofnunum ekki nægilega vel rökstudd, ef ég á að segja eins og er. Það væri frábært að geta náð þeim árangri ef það skilar áfram því verki sem þarf að vinna, því sem þarf að sinna. Í framhaldinu, t.d. með þróun í gervigreind, væri mjög áhugavert að sjá hvaða áhrif það hefur á stjórnsýsluna almennt, lögfræðivinnslu og ýmislegt svoleiðis. Það gæti verið aukahjálp í því að spara fermetra þegar allt kemur til alls. En grundvöllur þess að troða fleira fólki inn á færri fermetra er að mínu mati ekki alveg nógu vel rökstuddur. Ég held að við þurfum að ræða það á góðum forsendum af hverju það er sjálfstætt markmið að fækka fermetrunum og þá af hverju.