Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:05]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og vona innilega að hann verði sannspár. Við höfum gjarnan tekist á um það í þessum þingsal, bæði við hv. þingmaður og síðan þeir flokkar sem við tilheyrum, hverjar ástæður þess eru að þessar sveiflur sem hv. þingmaður talar um eiga það til að vera stærri upp á við en búist var við og líka niður á við. Við í Viðreisn höfum bent á að það sé ekki síst gjaldmiðlinum okkar að kenna eða þakka hverju sinni — ég vil segja að það sé honum að kenna því að ég held að það sé engum til góðs að sveiflurnar séu svona stórar og ófyrirsjáanlegar, hvort sem þær eru upp á við eða niður á við. En ég ætla ekki út í það og veit hvar skoðun þingmannsins liggur í þeim efnum. Ég hef í sjálfu sér enga aðra fyrirspurn til hv. þingmanns hér og nú, en ætla eiginlega að gefa honum gólfið til að klára umræðuna. Aftur vil ég árétta að ég vona að hann hafi rétt fyrir sér, annars vegar með það að við munum sigla vel og örugglega út úr þessu ástandi en ekki síst að fjárlaganefnd beri einfaldlega gæfu til þess að sýna styrk og taka á þessum málum, (Forseti hringir.) hemja útgjöldin — og ég óska þess að hemja þau en ekki bara halda status quo — og finna aðrar leiðir til að vinna bug á vanda ákveðinna greina, líkt og heilbrigðis- og velferðarmála, en að auka útgjöld enn frekar eins og staðan er nú.