Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

stefnumótun í fiskeldi.

[15:22]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt, sem kemur fram í máli hennar, að nú liggur fyrir mjög mikilvægur grunnur fyrir stefnumótun í fiskeldi. Við gerum ráð fyrir því að við höfum stöðu til að leggja fram drög að slíkri stefnu nú á haustdögum. Þau stefnudrög munu rata á samráðsgátt stjórnvalda rétt eins og önnur skref í þessari vinnu allri saman og vil ég fullvissa hv. þingmann um það að umhverfissjónarmið munu vega þungt í þeim efnum.

Já, ég hef kynnt mér þær umsagnir sem hafa borist við skýrslu Boston Consulting Group sem eru allt í allt 22 og ekki síst þær athugasemdir sem komu fram hjá Landvernd sem fjalla annars vegar um forsendur sviðsmyndanna en jafnframt um tiltekin mál sem lúta að umhverfissjónarmiðum eins og sambúð sjókvíaeldis og líffræðilegrar fjölbreytni, um losun gróðurhúsalofttegunda, um meginreglur umhverfisréttarins og þetta eru allt saman þættir sem ég vil fullvissa hv. þingmann um að eru alltaf á mínu borði og ekki síst í þeim undirbúningi sem þarna liggur fyrir.

Það er auðvitað þannig og þarf að vera alveg skýrt að skýrsla Boston Consulting Group er mikilvægur grundvöllur stefnumótunar stjórnvalda í þessum málaflokki en er ekki stefnumótun stjórnvalda.