Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

niðurskurður fjár vegna riðu.

[15:28]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Svo að ég víki í fyrsta lagi að kröfu sauðfjárbænda sem mér barst í dag, um að innleiða þennan hluta reglugerðar ESB og falla frá niðurskurði í hólfinu, þá er þetta í raun og veru vísindaleg spurning. Ég fylgi ráðleggingum sérfræðinga í þessum efnum og samkvæmt lögum þá ber yfirdýralæknir faglega ábyrgð á sjúkdómavörnum í búfé og gerir svo tillögu til mín, til að mynda um að fyrirskipa niðurskurð þegar riða greinist í síðustu viku. Það er unnið að endurskoðun riðureglugerðar í ráðuneytinu þar sem er horft til þess hvernig hægt væri að hagnýta ræktun til að draga úr líkum á að riðusmit komi upp í ljósi þess að núna vitum við að ARR-arfgerðin fannst í íslensku sauðfé. Þarna er ýmsum vísindalegum spurningum ósvarað og ég veit til þess að yfirdýralæknir hefur nú um helgina leitað til Landbúnaðarháskólans til að fara yfir álitaefni sem varða það hvernig hægt væri að beita ræktun til að vinna gegn þessum sjúkdómi. Þá eru auðvitað ýmis praktísk úrlausnarefni, en í reglum ESB er kveðið mjög skýrt á um aðskilnað hjarða sem greinst hefur riða í á tímabili þar sem byggð er upp hjörð með mótstöðu gegn riðu o.s.frv. Þetta þarf að skoðast í því samhengi sem sauðfjárrækt er stunduð á Íslandi.

Þetta eru allt saman spurningar sem verðugt er að skoða, en núna stendur það yfir að Umhverfisstofnun er að funda með sveitarfélaginu varðandi lausnir á förgun til að unnt sé að fullnusta þann niðurskurð sem fyrirskipaður hefur verið. En mikilvægast af öllu er að þetta er hryllilegt áfall fyrir bændur í Miðfirði og hugur minn er hjá þeim á þessum þungbæru tímum.