Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

[15:33]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Herra forseti. Það hefur verið undarleg upplifun fyrir mig, saklausan sveitamanninn, að fylgjast með aðgerðum og ekki síður aðgerðaleysi hæstv. matvælaráðherra. Ég hafði ákveðnar væntingar til hæstv. ráðherra þegar hún tók við starfinu en einhverra hluta vegna hefur sjónarmið litla mannsins í útgerð og litlu sjávarbyggðanna ekki átt neitt skjól hjá hæstv. ráðherra, alls ekki nokkurt. Mikið er lagt upp úr fyrirsjáanleika og sveigjanleika þegar komið er að rekstrarumhverfi stórútgerðarinnar en allt öðru máli gegnir um það þegar komið er að hagsmunum smáseiðanna í greininni.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki ástæðu til að huga að einhverjum fyrirsjáanleika þegar komið er að strandveiðisjómönnum og einnig minni fiskvinnslum. Hagsmunir þessara aðila fara saman þar sem megnið af afla strandveiðibáta fer á markað þar sem minni fiskvinnslur eiga tök á að kaupa afla. Það er mjög auðvelt fyrir hæstv. ráðherra að tryggja fyrirsjáanleika, það er einfaldlega með því að tryggja að það séu a.m.k. 48 dagar sem strandveiðibátar geta sótt sjó og það er ekki nokkur lifandi leið til þess að einhver ofveiði eigi sér stað með handfærum, það er útilokað. Síðan er það auðvitað þannig að þessi ráðgjöf Hafró er ekki upp á kíló, það er óvissa í þessu. Og hvers vegna ekki að láta litla manninn njóta vafans og litlu fiskvinnslurnar og tryggja t.d. að minni fiskvinnslur hafi aðgang að einhverju magni á markaði? Nei, það er ekki á dagskránni hjá ráðherra og með því að gera það ekki þá er hún ekki aðeins að fara gegn sjónarmiðum þjóðarinnar, sem hefur lýst því yfir í skoðanakönnunum að það skuli tryggja þessa þætti, heldur einnig eigin flokksfélögum.