Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

orkustefna.

[15:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það er ekkert nýtt að hæstv. ráðherra gangi illa að hlusta á fólk. Hér bar ég upp nokkuð skýrar spurningar en ég skal prófa að umorða hlutina og kannski bæta við vegna þess að, eins og ég skil ráðherrann, eins og ég skil svar ráðherrans, eins langt og það nær, þá er það stefna hans að tvöfalda orkuframleiðslu hér á landi, að taka ýtrustu sviðsmyndina í grænbókinni. Er einhugur um það í ríkisstjórninni? Eru allir flokkar sammála um að hleypa af stað enn einu virkjunartímabilinu, enn einu brjálæðistímabilinu þegar kemur að því að ganga á náttúru landsins í þágu skammtíma efnahagssjónarmiða? Er ráðherra þá búinn að ákveða að við sem sitjum hér í dag, við sem sitjum á þingi eða í ráðuneytum í dag, megum taka þá ákvörðun að botnvirkja Ísland og koma þar með í veg fyrir að komandi kynslóðir hafi nokkuð um það að segja? Það þættu mér nefnilega tíðindi, ekki fyrir heimsbyggðina (Forseti hringir.) heldur fyrir flokkana sem kenna sig við græna stefnu og sitja í ríkisstjórn, fyrir fólk sem vill líka að svona ákvarðanir séu teknar (Forseti hringir.) á faglegum forsendum en ekki — ja, á hvaða forsendum? Er einhugur um þetta, herra forseti, þessa stefnu ráðherra um að tvöfalda orkuframleiðslu?