Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

ríkisfjármálaáætlun.

[15:48]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra út í fjármálaáætlun. Það er ekki bara Viðreisn sem hefur lýst yfir áhyggjum af henni og afleiðingum hennar fyrir heimilin í landinu. Við höfum saknað þess að þar séu kynnt raunveruleg áform um að taka til í ríkisrekstrinum og draga þannig úr útgjöldum til að vinna á verðbólgu og við höfum lýst eftir aðgerðum sem munu hjálpa til við að ná niður verðbólgu og vöxtum á húsnæðislánum fólksins í landinu.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hefur talað um að fjármálaráðherra vilji hreinlega ekki taka raunverulegar ákvarðanir um aðhald sem er nauðsynlegt til að ná niður verðbólgu og talar líka um að ríkisfjármálin verði ekki löguð með því að einblína bara á tekjuhliðina. Félag atvinnurekenda hefur sagt að það hefði mátt ganga mun lengra í hagræðingarskyni. Fjármálaráðið hefur talað um að þörf sé á meiri festu í ríkisfjármálunum og að nýta hefði átt ófyrirséðan tekjuauka ríkisins núna til að bæta afkomu ríkissjóðs í stað þess að auka útgjöld. ASÍ bendir á að það sé of lítið gert til að verja heimilin og það finnst mér vera kjarni málsins. Þetta snýst um heimilin í landinu.

Það er verið að lýsa eftir aðhaldi og aðgerðum vegna þess að það eru mikilvæg verkfæri til að ná niður verðbólgu og vöxtum af húsnæðislánum. Fjármálaáætlunin sjálf talar mikið um að minni halli dragi úr þörf Seðlabankans til að hækka stýrivexti, en samt stígur fjármálaráðherra ekki þau skref sem þarf. Því vildi ég spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvaða augum hún lítur þessa gagnrýni á fjármálaráðherra, sem kemur núna nánast úr öllum áttum. Hefur hún skýringar á því hvers vegna fjármálaráðherra ætlar á tímum verðbólgu og svimandi hárra vaxta að halda áfram að auka ríkisútgjöld og skuldir ríkissjóðs? Hvaða augum lítur hún þessa þungu gagnrýni?