Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

ríkisfjármálaáætlun.

[15:54]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það myndi ekki hvarfla að mér að segja að þeir umsagnaraðilar eða að öll þessi gagnrýni væri byggð á einhverjum misskilningi. Hins vegar er það svo að ef við lítum á kenningar um ríkisfjármál og verðlag þá ganga þær hreinlega út á það að ef væntingar markaðsaðila eru til þess að viðkomandi ríkissjóður sé í þeirri stöðu að geta tekið með markvissum hætti á ríkisfjármálunum þá lækkar ávöxtunarkrafan. Við sáum að það gerðist á markaði og ég vil halda því til haga. Varðandi vaxtakjör ríkissjóðs Íslands þá tel ég að þau ættu að vera lægri. Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Skuldir ríkissjóðs Íslands eru ekki miklar í alþjóðlegum samanburði. Atvinnustig á Íslandi er mjög hátt. Við erum mjög sjálfbært hagkerfi. Við verðum með afgang, tel ég, á viðskiptajöfnuðinum og allir þessir þættir (Forseti hringir.) ættu að leiða til þess að vaxtakjörin ættu að lækka og ég vonast til þess að við sjáum það núna á næstu mánuðum.