Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

verkefnastyrkir til umhverfismála.

[15:56]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa frjáls félagasamtök á sviði útivistar, náttúru og umhverfisverndar getað sótt styrki til ráðuneytis umhverfismála, annars vegar rekstrarstyrki og hins vegar verkefnastyrki. Hægt hefur verið að sækja um styrki til rekstrar frjálsra félagasamtaka á málefnasviði ráðuneytisins undanfarin rúm 20 ár, en sérstökum verkefnastyrkjapotti var komið á fyrir ríflega tíu árum. Framan af voru upphæðirnar sem til var að dreifa lágar, hlupu á hundruðum þúsunda eða örfáum milljónum í tilfelli einstakra félaga eða verkefna.

Frjáls félagasamtök á sviði útivistar, náttúru og umhverfisverndar eru mikilvæg í lýðræðislegri umræðu. Mikilvægi þessara styrkjapotta má e.t.v. draga fram með tvennum hætti, annars vegar styður þetta við ákvæði Árósasáttmálans, sem kveður á um þátttöku almennings og annarra hagsmunaaðila í ákvörðunum og undirbúningi stefnumiða er snúa að umhverfismálum, og hins vegar er þessi stuðningur hins opinbera mikilvægur til að jafna aðstöðumun þeirra sem eru málsvarar útivistar, náttúru og umhverfisverndar og þeirra sem hafa sértæka hagsmuni að leiðarljósi við margháttaða nýtingu náttúrunnar. Það hefur verið á það bent að hver opinber króna sem lögð er til frjálsra félagasamtaka margfaldist. Þarna er því fjármagninu vel varið.

Í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar frá árinu 2017 sagði, með leyfi forseta:

„Frjáls félagasamtök gegna lykilhlutverki á fjölbreyttum málasviðum sem mikilvægt er að styðja við. Þar má meðal annars nefna jafnréttismál, íþrótta- og æskulýðsmál, umhverfis- og náttúruvernd, geðheilbrigði og málefni hinsegin fólks.“

Á grundvelli þessarar klausu voru rekstrar- og verkefnastyrkjapottarnir í þáverandi umhverfis- og auðlindaráðuneyti auknir verulega eða í ríflega 100 millj. kr. árlega.

Mig langar því að spyrja hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hvort úthlutað hafi verið úr þessum pottum á yfirstandandi almanaksári og hvort hæstv. ráðherra áformi að auka enn við þá potta sem umrædd frjáls félagasamtök geti sótt um styrki í.