Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

verkefnastyrkir til umhverfismála.

[15:58]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Varðandi spurninguna um hvort það hefði verið útdeilt þá hefur verið útdeilt þegar kemur að rekstrarstyrkjunum. Hins vegar held ég að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þessi mál og gætum þess að það sé gagnsæi og samræmi milli ráðuneyta og sömuleiðis að frjálsu félagasamtökin hafi einhvern fyrirsjáanleika þegar kemur að þessu. Það skiptir held ég mjög miklu máli að reglurnar séu þannig að þær séu skiljanlegar og eins hlutlægar og hægt er og þess vegna auglýstum við það síðast að við vildum skoða breytingar á þessu. Það er hins vegar auðveldara um að tala en í að komast. Þeir hafa náttúrlega hækkað mjög mikið. Við munum eftir því þegar þetta var mest á hendi fjárlaganefndar, þá voru styrkveitingar þar gagnrýndar mjög og m.a. var talað um að mikill tími hefði farið í þetta hjá nefndinni og mörgum fannst þetta ekki vera nógu fyrirsjáanlegt. Við lögðum því upp með markmiðið að einfalda styrkjaumhverfi og draga úr umsýslu og vinnu hjá starfsfólki ráðuneytisins og stofnana vegna þess að það er gríðarlega mikil vinna þar, sérstaklega þegar kemur að verkefnastyrkjunum. Einnig að jafna vægi milli áherslumála og auka fagmennsku og ávinning af ráðstöfun fjármuna, auka fagmennsku við mat á umsóknum og eftirfylgni með verkefnum og sömuleiðis að styðja betur við markmið stjórnvalda og bæta árangur í ráðstöfun fjármuna. Ég held að fyrirsjáanleiki, sem við tilgreindum, sé líka mikilvægur.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp hér því að ég held að það sé líka mjög mikilvægt að hv. fjárlaganefnd og hv. umhverfis- og samgöngunefnd skoði þetta og sjái hvernig þetta hefur þróast á undanförnum árum. Þetta eru auðvitað miklir fjármunir og mikilvægt að styrkja frjáls félagasamtök eins og hv. þingmaður vísaði til og færði góð rök fyrir. (Forseti hringir.) En það skiptir líka máli að þetta sé þannig að það sé bæði gagnsæi í þessu (Forseti hringir.) og að reglurnar séu eins hlutlægar og hægt er.