Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:14]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mér heyrist hæstv. innviðaráðherra strax vera búinn að gefast upp á rammasamkomulagi ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð af húsnæði. Þar er gert ráð fyrir 1.200 almennum íbúðum á ári næstu árin. Ef við berum rammasamninginn saman við skýrslu starfshóps um umbætur á húsnæðismarkaði þá leggur sá starfshópur mjög þunga áherslu á að þessi uppbygging verði að langmestu leyti í almenna íbúðakerfinu. Ef það eiga bara að rísa 700 íbúðir á ári þegar best lætur í almenna íbúðakerfinu er ríkisstjórnin í rauninni að senda þau skilaboð til sveitarfélaga og til uppbyggingaraðila að þau hafi heldur enga trú á þessu 4.000 íbúða markmiði sem lagt er upp með í rammasamkomulaginu og íbúðirnar þurfi að vera talsvert færri til að uppfylla þessa 30% hlutdeild, ég fæ alla vega ekki skilið þetta öðruvísi. Þetta held ég að séu mjög skaðleg skilaboð til sveitarfélaga og til uppbyggingaraðila og til aðila vinnumarkaðarins.

En í þessum rammasamningi fylgir sem viðauki aðgerðaáætlun. Þar er gert ráð fyrir að hæstv. ráðherra leggi fram tvö frumvörp á yfirstandandi þingi til að liðka fyrir húsnæðisuppbyggingu, annars vegar um Carlsberg-ákvæði, sem ríkisstjórnin lofaði reyndar fyrir fjórum árum síðan og hefur ekki staðið við, og hins vegar frumvarp um að tímabinda uppbyggingarheimildir á grundvelli samþykkts deiliskipulags sem er mjög mikilvægt til að sporna gegn lóðabraski, af því að verktakar sitja á lóðum jafnvel um árabil án þess að einhver almennileg uppbygging fari af stað. Nú er aprílmánuður meira en hálfnaður. Hvorugt þessara frumvarpa er komið fram hérna á Alþingi. Ætlar hæstv. ráðherra ekkert að fara að leggja fram þessi frumvörp sem fjallað er um í (Forseti hringir.) þessari aðgerðaáætlun sem fylgdi rammasamningum? Ætlar ríkisstjórnin sem sagt hvorki að standa við fjármögnunarþáttinn í rammasamningnum né þau fyrirheit um að hafa frumkvæði að lagasetningu á þessu tímabili?