Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:17]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Við getum glatt hv. þingmann með því að frumvarpið, sem ég hefði að sjálfsögðu viljað að kæmi fyrr, er bara á lokametrunum og birtist vonandi þinginu á næstu dögum. Það fjallar um heimildir sveitarfélaga bæði til þess að fara fram á svokallaða blandaða byggð og svo eru þar aðrar heimildir líka. En ég ætla aðeins að nota tíma minn til þess að leiðrétta hv. þingmann um markmiðið að á tíu árum séum við að fara að byggja 35.000 íbúðir. Við getum sagt að ef við værum að miða við 2024 og förum hægar af stað á árinu 2024 og svo eitthvað aðeins hraðar 2025 þá mun það þýða að þessi fimm fyrstu ár geta þá orðið 2026, 2027, 2028 og 2029 og svo koma þá árin þar á eftir og við náum alveg 35.000, sem ég er alveg sannfærður um að við getum gert. (Gripið fram í: hraða uppbyggingu)Það er einfaldlega þannig að það tekur ákveðinn tíma, eins og hv. þingmaður þekkir, að fara með skipulagsmálin af stað. Við erum að gera samkomulag við sveitarfélögin núna og þau eru að lofa að það séu til nægilega margar lóðir svo hægt sé að byggja. Samfylkingin hefur oft gagnrýnt okkur fyrir að það vanti peninga í stofnframlögin. Það hefur ekki verið vandamál á undanförnum árum. Við höfum einfaldlega ekki komið þeim út, m.a. vegna þess að það hafa ekki verið til lóðir, það hefur verið úthlutað lóðum sem ekki eru til, eiga að fara í skipulag eftir fimm ár, á Veðurstofureitnum eða á Hringbrautarstokknum, svo dæmi sé tekið. Allt þetta er að baki vegna þess að við erum búin að gera rammasamkomulag og síðan samninga við sveitarfélög og við erum með markmið um þessar 35.000 íbúðir. Og þó svo að á árinu 2024, vegna þeirra aðstæðna sem eru í samfélaginu í dag, náum við ekki þessu markmiði og jafnvel ekki á árinu 2025, þá náum við því í framhaldinu. Í dag eru 18% af þessum íbúðum sem er verið að byggja inni í þessu opinbera kerfi. Við ætlum að auka hlutfallið í 30–35%. Það tekur eðlilega tíma. Það er markmiðið og síðan setjum við fram aðgerðaáætlun um hvernig við náum þessu fram á nokkrum árum þannig að ég trúi því að við náum þessu, hv. þingmaður.