Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:20]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við höfum verið að ræða hér skýr markmið í ríkisfjármálunum, að ná niður verðbólgu, að verja lífskjörin og verja kaupmáttinn okkar. Við munum leita til þess allra leiða en við höfum þegar náð miklum árangri við að draga úr halla ríkissjóðs og höfum hér skýrt markmið um að stöðva hlutfallslega hækkun skulda. En nú beini ég spjótum að hæstv. innviðaráðherra sem ráðherra sveitarstjórnarmála því að hinum megin við götuna, í langstærsta sveitarfélagi landsins, er allt önnur stemning við fjármálastjórn. Þar fer hallarekstur hratt vaxandi en rekstrarhalli á síðasta ári var tæp 10% af veltu en áætlun gerði ráð fyrir 1,4% halla. Reykjavíkurborg er rekin á yfirdrætti og treystir sér hreinlega ekki í skuldabréfaútboð við núverandi aðstæður. Það er af sem áður var en áratugum saman hafði Reykjavíkurborg afburða fjárhagsstöðu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvaða áhrif þessi alvarlega fjárhagsstaða og horfur í stærsta sveitarfélaginu hafi á ríkisfjármálin, á óvissu- og áhættuþætti? Ég myndi fyrir fram telja að staðan hefði mikil áhrif. Ég myndi sömuleiðis vilja heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann hafi fylgst með því hversu mjög fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar hefur versnað með tilliti til skuldaviðmiða og skuldahlutfalla, lögum og reglum samkvæmt, og í samræmi við lögbundna eftirlitsskyldu hæstv. ráðherra hvort hann hafi í hyggju að hefja viðræður við Reykjavíkurborg um þessa alvarlegu stöðu áður en bráðabirgðaundanþága sveitarstjórnarlaga rennur út til að koma í veg fyrir alvarlegt vantraust til sveitarfélaga á fjármálamarkaði.