Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:39]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni og ég þakka honum fyrir að taka upp almenningssamgöngurnar. Það eru ýmsir málaflokkar og almenningssamgöngur eru kannski einn af þeim málaflokkum sem við gætum gert meira í og þurfum að gera meira í, hvort sem við erum að horfa í nútíð eða nálæga framtíð og hvað þá fjarlægari framtíð.

Þetta er flókið hérna á höfuðborgarsvæðinu. Annars vegar er samningur sem er síðan 2012 um u.þ.b. milljarðs stuðning við almenningssamgöngur. Hann fólst í því að ríki og SSH gerðu samning um það á móti því að ríkið kæmi með milljarð til að styðja við Strætó þá yrði horfið frá uppbyggingu stofnvega að mestu leyti. Ég held að þetta hafi verið mistök. Ég held að þetta sé hluti af þeirri innviðaskuld sem við höfum verið með. Þessi samningur var til tíu ára, rann út 2022. Við framlengdum hann í síðustu samgönguáætlun út áætlunina, sem var auðvitað stór ákvörðun um viðbótarstuðning og kannski í anda þess að við værum einmitt að vinna með loftslaginu. Hitt er síðan samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins, sem er uppbygging hágæðaalmenningssamgangna og stofnvega, hjóla og göngu. Þar er síðan búið að samþykkja að setja verkefnið í hendur á fyrirtæki sem heitir Betri samgöngur sem er að stærstu leyti í eigu ríkisins en með aðkomu sveitarfélaganna og framkvæmdaraðilinn er oftar en ekki Vegagerðin, og hún er líka ráðgjafi, og mikilvægur sem slíkur. Sveitarfélögin eru líka í einhverju slíku. Það má ekki rugla þessu saman.

En við erum hins vegar, og það er rétt hjá hv. þingmanni, og það var eiginlega það sem ég ætlaði að svara, að tala um báða þessa samninga í augnablikinu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu með það markmið að gera enn betur en við höfum verið að gera á liðnum árum. Hvernig það endar ætla ég ekki að spá um fyrr en það liggur fyrir. En þá kemur það auðvitað til þingsins til umfjöllunar. (Forseti hringir.) En svo vil ég bara nota tækifærið og benda á að við megum ekki gleyma því að það er fleira en almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, það er Ísland allt. (Forseti hringir.) Það eru líka ferjur og það eru flugvellir og loftbrúin hefur t.d. reynst alveg ótrúlega vel sem almenningssamgönguviðbót fyrir mjög marga á landinu.